Kæri lesandi,

þá er fyrsti dagur í bústaðnum að kveldi kominn. Þetta vetrarfrí er formlega hafið. Stelpurnar lesa daglega hérna hjá okkur, Gunna skrifar ritgerð um Benjamín Dúfu, og þess á milli spilum við. Í kvöld lenti ég í öðru sæti á eftir Lilju, Kolla náði þriðja og Gunna því fjórða. Hún tók því ekki illa þótt yngri systir hennar hefði verið fyrir ofan hana, en ég skal hundur heita ef hún hyggur ekki á hefndir. Sjálfum er mér oftast sama þótt ég tapi fyrir Lilju, hún er eitursnjöll í spilum, og, þú veist, happy wife happy life.

Við tókum kisuna með okkur í bústaðinn. Um leið og hún slapp úr búrinu hér innandyra fór hún undir stærsta rúmið og sat sem fastast þar í tvo tíma. Svo færði hún sig varlega fram og undir sófa. Síðdegis var hún farin að kúra hjá okkur til skiptis og um kvöldið lá hún bara hvar sem henni sýndist og svaf. Það tók hana sem sagt um átta tíma eða svo að verða eins og heima hjá sér í bústaðnum, en hingað hefur hún ekki komið í eitt og hálft ár eða síðan hún var lítill kettlingur. Hún á eftir að gera þetta hús að sínu eigin á næstu dögum.

Annars er frá litlu að segja. Þannig er það oft í bústað, til þess er leikurinn gerður. Ég las rúmlega hálfa bók í dag, er raunar enn lesandi, gerði aðeins hlé til að blogga smá, viðhalda daglega stuðinu mínu en ég hef enn ekki misst úr dag í febrúar. Við komum hingað í hádeginu, flýttum okkur sem mest við máttum í morgun til að vera komin austur fyrir fjall áður en enn ein lægðin (gul viðvörun) skall á suðurlandið. Svo skall lægðin á og … þetta var ekki neitt neitt. Algjört svikalogn.

Í kvöld horfðum við Lilja svo með Gunnu á myndina Yes Man með Jim Carrey á DVD-diski. Kolla var sofnuð og við skemmtum okkur ágætlega yfir þessari mynd. Það er einhver smá poppkúltúrsviska í þeirri pælingu að leiðin til meiri hamingju geti falist í því einu að segja oftar já við tækifærum og boðum lífsins. Dýpri getur Jim Carrey vart orðið.

Á morgun ætla ég svo að klára bókina og fara í heita pottinn.

Þar til næst.