Kæri lesandi,
þá er enn einn dagurinn liðinn, skráður í sögubækur, flúinn til fortíðar, o.sv.frv. Ég svaf lengur en ég ætlaði mér, við fórum í göngutúr í blíðunni, sóttum snjókarl úr skafli, slökuðum okkur ofan í heitan pott, horfðum á Big með Tom Hanks og Tenacious D-myndina. Ég kláraði bókina og þar með leslistann. Við átum heimagerða pítsu í boði hjarta hússins. Kisa kúrði.
Ég horfði líka í spegilinn. Stundum grípur mann þetta óeðli, tilvistarkreppan svokallaða. Ég má ekki standa fyrir framan spegla og hlusta á lög unga fólksins, frá því þegar ég var ungur. Þá mætast þeir nefnilega, ungi maðurinn sem hékk yfir græjunum til að geta tekið þessi lög upp á kassettu úr útvarpinu, og sá sem blasir við í speglinum í dag. Þeir þekkjast ekki, eiga lítið skylt en geta samt ekki flúið hvor annan. In my mind’s eye, one little boy one little man, funny how time flies …
Nú sit ég við enda langborðsins og hlusta á Alice in Chains. Þreytulegur og geispandi, þótt ekki sé langt síðan ég hefði talið að-ganga-miðnætti vera snemmt fyrir slíkt. Á morgun kemur nýr dagur, þeim lýkur víst aldrei fyrr en einn daginn. Aðeins einn þeirra er sá síðasti. Hina dagana skuldar maður sjálfum sér að lifa.
Þar til næst.