Kæri lesandi,

í dag fórum við inn á Selfoss í erindagjörðir. Versla mat, kíkja í ísbúð. Það sem maður gerir á föstudegi í bústað. Við það tækifæri rölti ég yfir í Bókakaffi Sæmundar og keypti mér bók. Það er ákveðinn sjarmi yfir þeirri bókabúð. Hún selur nýjustu íslensku bækurnar og gott úrval af nýlegum erlendum, en það sem mér finnst eiginlega skemmtilegast við hana eru notuðu bækurnar. Ég finn eiginlega alltaf eitthvað þar sem ég var ekki að leita að, eitthvað sem finnst ekki í öðrum bókabúðum. Í dag fann ég The Given Day, sögulega skáldsögu eftir Dennis Lehane. Ég er þegar byrjaður á henni, þegar ég las fyrstu blaðsíðurnar á kaffihúsinu og sá að hún byrjar á kafla um ferðalag Babe Ruth og the Red Sox með lest frá Chicago til Boston árið nítjánhundruðogátján þá stóðst ég auðvitað ekki málið. Lehane að skrifa um hafnabolta? Kommon. Selt.


Það er alltaf verið að rífast um brottrekstur innflytjenda úr landi. Við erum alltaf að æsa okkur yfir því að þessi eða hinn eigi að fara úr landi. Auðvitað er ég sammála því að það er ómögulegt að senda fólk sem á um sárt að binda til baka í ömurlegar aðstæður, en ég verð líka að segja að við munum aldrei komast að neinni niðurstöðu í þessum stóru og flóknu málefnum ef við tökum umræðuna aldrei nema þegar mikið er undir. Þá verða umræðurnar svo tilfinningaþrungnar að hin hliðin afskrifar okkur sem einhverja hysteríu. Bleedin’ heart liberals er þetta kallað af hægrinu vestan hafs, hérna á skerinu hugsar íhaldið eflaust eitthvað svipað þegar fólk mótmælir fyrir utan ráðuneytin og afhendir undirskriftalista. Maður fær á tilfinninguna að ráðafólk sé stundum að vinna út frá mjög einfaldri reglu: „Hversu lítið kemst ég upp með að gefa eftir?“ Leyfa eins og einni transmanneskju frá Íran að vera um kyrrt hér heima? Ókei. Það ætti að kaupa okkur smá frið.

Og á meðan breytist ekkert. Við endurtökum sömu umræðuna næst, og þarnæst. Reglunum er aldrei breytt, ráðamenn fela sig alltaf á bak við reglurnar, og við hin æsum okkur aldrei yfir þessu nema þegar mikið liggur við fyrir þetta pósterbarnið eða hitt. Þetta er gölluð umræða.


Í morgun hófst miðasala á tónleika Skunk Anansie í Höllinni næsta haust. Ég hafði ekki hugmynd um þetta fyrr en Lilja benti mér á það í gærkvöldi. Ég hef ekki enn keypt miða, þótt ég ætti eflaust pottþétt að gera það. Fátt væri öruggara um að hitta í mark hjá mér en að fá Skin arkandi yfir axlirnar á mér og handleggina eins og hún gerði í Höllinni ’97. Það voru frábærir tónleikar. Mikið þætti mér gaman að sjá þau aftur í Höllinni.

Af hverju hef ég þá ekki hlaupið til og keypt miða? Ég spurði mig að því í dag. Ég held að svarið sé að ég er hreint ekki viss hvort ég meika að fara á þessa tónleika innan um alla miðaldra jafnaldra mína. Hljómsveitin á sviðinu er örugglega kætandi og bætandi eins og forðum daga, en mikið djöfull grunar mig að áhorfendur myndu gera mig dapran. Ekki það að ég sé mikið skárri, en þú skilur, lesandi kær. Það er þetta sem ég skrifaði í gær um spegilinn og allt það. Þverskurður áhorfenda á Skunk Anansie-tónleikum væri nær örugglega niðurdrepandi.

Æi fokk, ég hætti þessu væli og kaupi mér miða á morgun. Fer alveg upp við sviðið og öskra með lögunum eins og ég sé orðinn sautján á ný. Skin er þess virði.

Þar til næst.