Kæri lesandi,
hér var í dag sett einhvers konar met í leti. Ég hef ekki gert neitt í dag. Las 50 bls, datt ofan í YouTube-holu í svona klst, fór ekki út úr húsi, lék við dætur mínar og horfði á fótbolta. Tók tvisvar til í eldhúsinu, einhverra hluta var það orðið fullt af leirtaui eftir kvöldmat þrátt fyrir alþrif mín í hádeginu. Annað var það nú varla.
Síminn minn bilaði í dag. Ég á iPhone, einhverja plús-tegundina (þá stærri) með takka, tæplega tveggja og hálfs árs gamlan. Þetta eru orðnir svo góðir símar í dag að ég er hættur að fylgjast með nýjungum, get ekki sagt að mér liggi á að uppfæra fyrr en þetta bilar eða bregst. Það gæti hafa gerst í dag. Ég missti hann tvisvar úr höndunum í gær, fyrst á grjótið og mölina við bílinn minn og svo aftur á parketið í bústaðnum. Það sá ekkert á honum eftir það en í dag hætti takkinn á honum að virka. Sem gerir notkun ansi snúna, því iPhone er jú bara með þessum eina takka sem öllu stjórnar.
Kannski er kominn tími til að ég kaupi mér einn af þessum krípí takkalausu símum sem þekkja andlit mitt. Algjört Minority Report-dæmi á ferðinni þar. Sjáum til. Ég geri hvort eð er ekkert í þessu fyrr en eftir helgi þannig að þessi fær tíma til að sýna lífsmark.
Í kvöld tók ég samt mynd á símanum. Við lok eldhústiltektar númer tvö fór ég út með ruslið og sá svo fallegan stjörnuhimin fyrir ofan sólsetrið og Ingólfsfjallið. Ég stóðst ekki mátið og reyndi að taka mynd … með símanum. Sú besta sem ég náði er hér fyrir ofan. Mér finnst hún ansi óskýr og þvæld, sem er ólíkt símamyndavélinni. Kannski önnur vísbending um að hann sé á síðasta snúningi? Kemur í ljós.
Í kvöld ætla ég svo að sitja á pallinum í myrkrinu, sötra syndina svörtu og stara upp á stjörnurnar. Veðrið er svo gott, og það að geta kíkt á sólkerfið í myrkrinu utan byggða er eitt það besta við að fara í bústað. Á morgun pökkum við svo saman og keyrum heim.
Þar til næst.