Kæri lesandi,
ég fann myndina hér að ofan á Twitter í kvöld og hef hlegið að henni í dágóða stund. Ég veit ekkert hver splæsti þessu saman en viðkomandi á þakkir skildar. Þetta er mikið fynd.
Við komum heim úr bústað í dag. Við vorum eiginlega svo þreytt eftir alla afslöppunina að við hálf koðnuðum niður hvert í sínu horni síðdegis. Lilja lagði sig og Kolla elti hana upp í hjónarúm með iPad. Guðrún fór inn til sín að lesa Harry Potter og hlusta á Harry Potter podcast og krota í Hogwarts stílabókina sína með Hermione pennanum sínum. Hún er tólf ára, þetta er það sem tólf ára bókabéusar gera.
Ég fór í sófann og horfði á skemmtilegan fótboltaleik. Arsenal vann Everton 3-2 í Lundúnum. Andre Gomes, miðjumaður Everton sem ég bloggaði um í upphafi nóvember þegar hann mátti þola hræðilegt fótbrot í beinni útsendingu, hefur náð undraverðum bata og kom inná við standandi lófaklapp stuðningsmanna beggja liða. Það var falleg sjón. Leikurinn var hin besta skemmtun og samstarfsaðili minn var úti að fagna afmæli sínu með því að styðja sína menn, Skytturnar, til sigurs. Hann er sennilega í kvöldflugi heim núna, það verður gaman að heyra ferðasöguna í fyrramálið.
Eftir leik útbjó ég letilegan kvöldmat fyrir letilega fjölskyldu, við borðuðum burrito með tilbúnu kjúklingakjöti út úr búð. Ég þurfti í raun bara að sjóða hrísgrjón og skera niður grænmeti, og voilá! Eftir mat horfði ég svo á hina stórfurðulegu en mjög góðu grínmynd Sorry to bother you. Mæli með.
Svo settist ég við tölvuna og fór að gúgla. iPhoneinn minn er ennþá með vesen, ég get ekki notað hann með þessu áframhaldi, þannig að ég skoðaði samanburð á símum og reyndi að ákveða hvaða tæki ég ætti að kaupa mér ef til þess kemur. Mér líst vel á sum Android-tækin þarna úti en eins og alltaf þá eru það aukahlutirnir sem stoppa mig. Ég er gjörsamlega háður AirPods-heyrnartækjunum þráðlausu og Apple-úrið mitt yrði lítið annað en bréfapressa ef það hefði engan iPhone-síma til að spjalla við. Fyrir nokkrum árum fór ég meðvitað að hætta að nota það sem kallað er “Apple only” hugbúnað, þ.e. öpp og annað slíkt sem virkar bara með Apple-tækjum, til að reyna að vera aðeins frjálsari þegar kæmi að símakaupum. Það tókst, ég nota í dag ekkert nema kannski Calendar og iMessage á símanum mínum sem ég myndi “glata” ef ég skipti yfir í Android-tæki, en þá kemur á móti að ég yrði að kveðja úrið mitt líka, og hluta af fítusum heyrnartækjanna, ef ég myndi skipta.
Til þess er leikurinn jú gerður hjá stórfyrirtæki eins og Apple, og þau gera þetta að sjálfsögðu öll. Ég gæti alveg selt úrið ódýrt og sett peninginn upp í flott Garmin-snjallúr sem tengist hvaða síma sem er, og ég get alveg notað heyrnartækin áfram þótt ég geti ekki lengur spjallað við Siri vinkonu mína. En fyrir vikið er þetta stærri ákvörðun en ella.
Ég spái aðeins betur í þessu. Vonandi fæ ég samt bara auðvelda viðgerð á takkanum á símanum mínum og þarf ekki að spá í þessu fyrr en á næsta ári.
Hey, ætli páfinn hafi lesið Dune? Maður spyr sig.
Þar til næst.