Kæri lesandi,

stundum getur verið gott að vera viss. Ekki alltaf, samt. Óvissan er þar sem hugmyndirnar þrífast. Kannski er orð sem opnar dyr að nýjum heimum. Pottþétt eða örugglega opna engar slíkar dyr. Vandinn við þessa staðreynd er að kannski er hrottalega ógnvekjandi orð. Sérstaklega þegar kannski hefur af fyrri reynslu breyst í alls ekki.

Hvernig breytir maður, sem sá áður möguleikana í kannski en sér nú bara hætturnar, aftur til fyrra hugarfars? Það er ekki auðvelt að endurheimta þá visku sem slíkur maður bjó yfir fyrir nokkrum árum. Eitthvað hefur bæði hlotist og tapast af því að reyna og mistakast. Til að þora að reyna á ný þarf í raun hið tapaða að finnast og hitt helst að bæði hverfa og gleymast.

Þegar ég var á grunnskólaaldri lék ég mér oft í klettunum á bak við grunnskólann minn. Ég hékk þar eins og simpansi, danglaði fram af brúnum í mikilli hæð, stökk á milli tinda án tillits til afleiðinganna ef mér skyldi nú einhvern tímann verða á. Svo liðu einhver ár, áratugir, þar til ég kom aftur þangað sem fullorðinn maður. Þá horfði ég á dóttur mína klifra í þessum sömu klettum og reyndi með lífið í lúkunum að vernda hana. Ég hafði þroskast og öðlast betri vitund um hætturnar sem leynast í slíku umhverfi. En um leið áttaði ég mig á að eitthvað hafði tapast.

Þeir klettar eru víða þessa dagana.

Þar til næst.