Kæri lesandi,

þegar þetta er skrifað sit ég einn á skrifstofunni minni í Sandgerði. Hér fyrir ofan er mynd, hún sýnir ástandið út um gluggana hérna í Suðurnesjabæ í dag. Febrúar er að renna sitt skeið og enn vaknar maður við einhverja helvítis lægðina sem hefur lagt allt undir sinn hrjóstruga hramm að næturlagi. Og þetta hefur bara ágerst í dag. Það fer ákveðið magn af orku í að þurfa að fylgjast með vef Vegagerðarinnar yfir daginn til að sjá hvort maður kemst ekki örugglega heim í dagslok. Ég gæti alveg notað þá orku í eitthvað annað.

Til að flækja málin er ég bíllaus hér á skeri. Skildi bílinn eftir í morgun á verkstæði í Njarðvík Reykjanesbæ (framrúðuskipti) og snapaði mér far hingað út eftir. Nú bíð ég eftir að heyra hvenær ég má snapa mér far til baka og sækja bílinn, hvenær ég kemst á brautina og hvort það verður of seint. Þetta er ákveðið ástand.


Í morgun sat ég í biðröð á netinu. Um var að ræða forsölu á tónleika Beck í Laugardalshöllinni eftir þrjá mánuði, tónleika sem ekki var tilkynnt um fyrr en í upphafi viku og þá stukkum við strax til ég og vinur minn, enda kom aldrei til greina að láta Meistara Beck framhjá sér fara fyrst hann er að koma í heimsókn. Um tólfleytið opnaðist á biðröðina fyrir forsölu og við sátum báðir við sitt hvora tölvuna, hann á skrifstofu í miðbæ Reykjavíkur og ég hér í Sandgerði, með símalínuna opna á milli okkar, og sáum hvað við fengum. Hann var heppnari, komst á undan í miðakaup og verslaði því fyrir okkur báða sæti á besta stað í stúkunni. Þetta er geirneglt og því orðið staðfest að júní verður frábær mánuður. Ég get ekki beðið.


Nú er ég svo að hlusta á íslenska hljómsveit sem heitir því skemmtilega nafni Hipsumhaps. Platan heitir Best geymdu leyndarmálin og hún er ansi góð. Textasmíðin er á köflum mjög góð en á öðrum stundum svolítið óvönduð, eins og mér finnst alltaf loða við þessa kynslóð íslenskra poppara sem er að ryðja sér rúms þessi dægrin, en tónlistin er skemmtileg og heillandi og mörg laganna eftirminnileg. Miðaldra maður mælir með þessum lögum unga fólksins.

Þar til næst.