Kæri lesandi,

kórónuvírusinn svokallaði hefur náð hingað til lands. Fréttamiðlar hafa varla fjallað um annað í allan dag en fyrsta smitið, mann á fimmtugsaldri sem var í skíðaferð á Ítalíu með fjölskyldunni. Kona hans ku ekki vera smituð, sem er gott.

Auðvitað er erfitt annað en að drekka þessar fréttir í sig. Við þurfum öll að fylgjast vel með, vera upplýst og gera okkar til að hindra útbreiðsluna. Maður þvær sér um hendurnar, gengur um í vettlingum, dóttir mín bað um grímu fyrir öndunarfærin í dag, og svo framvegis.

Eitt fannst mér samt hálf dystópískt í dag, en það er þegar sóttvarnarlæknir lagði til að fólk sleppti því að heilsast með snertingu. Handabönd, kossar, faðmlög, þetta er allt á bannlista. Við þurfum að sýna hvert öðru tillitssemi og alúð með því að sleppa því að sýna innilegheit. Veifa þér bara á förnum vegi, sendi þér email. Sjáumst, mamma!

Annars fékk ég nýjan síma í hendurnar í gær, eftir að takkinn á þeim gamla sveik mig. Sá nýji er takkalaus, notar andlitsgreiningu til að hleypa mér inn í símann, en ég efast reyndar um áreiðanleika þeirrar tækni þegar síminn hleypir mér inn þótt ég sé með sólgleraugu. Næsta skref er að prófa þetta enn betur og láta annan hvorn bróður minn reyna að komast inn. Þeir eru með sömu höku og ég.

Tæknin er reyndar mögnuð. Ég gat fært allar stillingar og efni á gamla símanum yfir í nýja með því einu að láta þá sitja hlið við hlið í gær. Það tók reyndar tæpan klukkutíma, en samt. Einfalt. Mesta vesenið var að ná að tengja snjallúrið við nýja símann, en úrið virtist ekki vilja sleppa þeim gamla sem sínum aðalsíma. Ég fékk hálfgert samviskubit að stía þeim svona í sundur.

Hér er annars hæka dagsins. Hún er ekki alveg rétt, síðasta línan brýtur formið, en í ljósi móðursýkinnar og samsæriskenninganna sem gjósa upp á heimsvísu um kórónavírusinn er vert að hafa þetta að leiðarljósi:

Þar til næst.