Kæri lesandi,

nú situr fjölskyldan mín í sófanum og horfir á úrslit Söngvakeppninnar þetta árið. Þetta er eina kvöld ársins þar sem ég er ekki velkominn í sófann hjá stelpunum mínum og eiginkonu. Það er af góðri ástæðu, enda þykir fáum hér á landi þessi heimska keppni jafn leiðinleg og mér þykir hún. Ég … ég bara get þetta ekki. Hef aldrei getað, man eftir unga drengnum sem skildi ekki af hverju allir aðrir umturnuðust þegar þessi keppni var annars vegar.

Þannig að ég held mig til hlés, sit við borðið og vélrita og hlusta á eitthvað í noise cancelling heyrnartólunum mínum.

Þetta er reyndar sérstaklega slæmt í ár. Oft er hægt að finna eitt lag sem hljómar ekki eins og stíflað ræsi, ekki alltaf en flest árin. 2020 er ekki eitt af þessum árum. Öll lögin sem eru í úrslitum eru hræðileg og við erum að sóa tíma og peningum að ætla að gera okkur upp áhuga á einu þessara stífluðu niðurfalla. Sorrý með mig.


Í dag fórum við á bókamarkaðinn á Laugardalsvelli. Að venju keyptum við allt of mikið af bókum, tæplega þrjátíu stykki á rúmlega 22 þúsund krónur, sem kallast kostakjör hér á bæ. Sjálfur keypti ég tíu bækur á 10.038 krónur og ætla mér að lesa þær allar á næstu misserum. Það bar vel í veiði þetta árið, enda alltaf hátíðardagur þegar maður kemst á bókamarkaðinn. Staflinn minn er á myndinni hér að ofan.

Ég fagnaði samt bókakaupunum með því að fara heim og horfa á tvo drepleiðinlega fótboltaleiki. Liverpool tapaði loks deildarleik, og það illa, sem kom mér í vont skap. Söngvakeppnin kom mér svo í enn verra skap og nú hef ég hellt úr skálum reiði minnar yfir lyklaborðið. Það er eins gott að ég sæki ekki um starf einhvers staðar í framtíðinni, eða fari í framboð, og einhver grafi þessa færslu upp. „Forsetaframbjóðandi hatar Júróvisjón!“ Sá pólitíski ferill yrði ekki langlífur. Ég biðst fyrirfram afsökunar á að vera fúli kallinn, ég lofa ykkur að ég er orðinn hressari í geði þegar ég geri atlögu að Bessastöðum!

Þar til næst.