Kæri lesandi,

það er víst kominn marsmánuður. Ég skrifaði ekkert hérna fyrstu tvo dagana í mars af því að andinn greip mig ekki. Ég hafði ekkert að segja. Þannig er þetta bara stundum, og þá er best að þegja frekar en að skrifa einhverja vitleysu.

Það er óhætt að segja að Ísland sé undirlagt undir kórónavírusinn svokallaða. Nú eru staðfest smit orðin níu og um þrjú hundruð manns sagðir í sóttkví. Víða eru gerðar varúðarráðstafanir. Fólk er hætt að takast í hendur, á foreldrafundi í morgun í grunnskóla dætra minna var fólk í alvöru að heilsast með því að slá skóm saman og brosa. Kennarinn sagði að krakkarnir töluðu um „wifi“, það er þegar þú heilsar og veifar. Ég þarf að spyrja dóttur mína nánar út í það nýyrði á eftir.

Það er mikið puð að reyna að greina hismið frá kjarnanum og tryggja að stressaðar dætur fái réttar upplýsingar, séu bæði fullvissaðar um að þær séu nú ekki í bráðri lífshættu en um leið að ítreka að þær verði að gera sitt til að hindra smitleiðir, vera duglegar að þvo sér með sápu og svona. Sá vegur er þröngur og illfær að virkja þær til aðgerða án þess að þær stífni upp af kvíða. Líklega glíma flestir foreldrar barna við þessa þraut núna. Okkur sýnist mér takast ágætlega upp, nema þegar Gunna kom heim úr skólanum í gær og hoppaði beint upp í hjónarúm með bók og tróð ótrúlega skítugum sokkum beint á kodda okkar foreldranna. Þá fékk hún skammir, og það réttilega. Þá sagði hún úps, og það réttilega.

Vonandi verður þetta ekki of slæmt. Ég heyrði í morgun í fréttum að einhver er að áætla að þetta gæti gengið yfir á tveimur mánuðum, en svo sé möguleiki að þetta snúi aftur í haust þegar kólnar á ný. Eins áttar maður sig á því að það munu verða dauðsföll á Íslandi af þessari veiru, eins og annars staðar, og þótt maður teljist ekki í áhættuhópi sjálfur (undir sextugu, engir undirliggjandi kvillar) þá er erfitt að hugsa til þess að einhver þarna úti, hvort sem það er undirritaður eða ekki, eigi eftir að syrgja ótímabær andlát vegna þessarar veiru. Það setur allavega allt grín um þennan faraldur í samhengi. Aðgát skal höfð, og allt það.

Vonum það besta, þvoum okkur um hendurnar og heilsumst með skónum.


Lesturinn heldur áfram. Ég kláraði hina frábæru Dirty White Boys, sem er önnur bókin sem Stephen Hunter skrifaði í „heimi“ þeirra feðga Bob Lee Swagger og Earl Lee Swagger. Ég las fyrstu bókina, Point of Impact, um Bob Lee fyrir jól og elskaði hana (hún er miklu, miklu betri en myndin Shooter með Mark Wahlberg í aðalhlutverki, sem gerð var eftir bókinni). Í næstu bók á eftir, Dirty White Boys, segir hann hliðarsögu um þrjá strokufanga og lögreglumanninn sem reynir að elta þá uppi. Sú saga tengist svo aðeins inn í næstu sögu um Bob Lee Swagger, og um leið föður hans Earl Lee, en Hunter heldur áfram með sögu þeirra feðga á tveimur tímalínum í næstu bók, Black Light, sem ég er þegar byrjaður á.

Eftir það skilja leiðir að mér skilst, Bob Lee Swagger heldur áfram í sinni eigin seríu sem spannar nú ellefu bækur en faðir hans, Earl Lee hefur fengið þrjár bækur út af fyrir sig. Ég les þær þegar ég er búinn með Bob Lee, en þessi sería hefur heltekið mig.

Reyndar er það svolítið spes að hugsa til þess að Dirty White Boys sé með betri glæpasögum sem ég hef lesið og engu síðri en Point of Impact, því DWB skartar einhverri erfiðustu og mest fráhrindandi fyrstu blaðsíðu sem ég man eftir. Við sjáum mynd:

Þetta er fyrsta blaðsíðan í bókinni. Pælingar um limastærð Lamar Pye, helsta óþokka bókarinnar, auk rasisma og niðrandi orða eins og fags og bitches og snitches og buttfuckers. Ég var svo æstur að byrja á þessari bók eftir að ég lauk við hina frábæru Point of Impact að ég hjólaði beint af stað en fyrsti kaflinn stuðaði mig svo mikið að ég lagði hana frá mér í tvo mánuði. Ég spurði mig hvernig jafn flinkur höfundur og Hunter gæti hreinlega náð bingói af bönnuðum umræðuefnum strax á fyrstu blaðsíðu, og svo versnaði það bara á næstu blaðsíðum á eftir, eða allt þar til Lamar Pye brýst út úr fangelsinu og leggur á flótta ásamt tveimur öðrum.

En svo í síðustu viku kom ég aftur að bókinni og hélt áfram og þegar ég skildi hvert Hunter var að fara með þessu dónatali, hvers vegna hann setti bókina svona upp frá byrjun, þá brustu allar varnir og ég las yfir mig. Fimm hundruð blaðsíðum síðar er ég hæstánægður og mæli með þessari bók við alla sem vilja lesa heimsklassaglæpasögu.

Og nú er ég byrjaður á næstu bók. Hunter er frábær og ég hlakka til að klára seríuna, enda hef ég aldrei rekist á rithöfund sem skrifar jafn vel um skotvopn og Hunter gerir. Þau eru alltaf persónur í stóru hlutverki í sögum hans, sem ég hefði ekki trúað fyrirfram að ég hefði mikinn áhuga á að lesa, en þetta er bara svo ógeðslega vel gert.


Önnur sería sem ég ákvað að lesa í ár eru Asíubækur James Clavell. Þær eru sjö talsins og byrja á hinni margrómuðu Shogun, sem fjallar um breskan skipstjóra sem skolar skipreka upp á land í Japan á sautjándu öld og þarf að lifa þar af í framandi menningu heimamanna. Bækurnar sjö tengjast víst lítið innbyrðis en eiga að vera frábærar og ég hef lengi ætlað mér að klára þær, enda skrifaði Clavell engar aðrar skáldsögur og því nokkuð auðvelt að „klára hann“ eins og við bókaormar köllum það.

Ég er að hlusta á þessar bækur og byrjaði á Shogun í gær. Hún fer mjög vel af stað og ég hlakka til að njóta þess mótvægis sem býr í sverðum Samúræjanna, svona á milli þess sem ég les heimspekilegar pælingar Stephen Hunter um skotvopn.

Sverð og skotvopn, það er á dagskránni hjá mér. Ég hef allavega nóg að lesa ef ég skyldi enda í sóttkví á næstu vikum.

Þar til næst.