Kæri lesandi,

í gær fór ég til næringarfræðings. Það var síðasti sérfræðitíminn í bili, og ég hef þar með staðið við áramótaheitið, kominn með bingó af sérfræðingum (sjúkraþjálfari, heimilislæknir, næringarfræðingur, sálfræðingur, einkaþjálfari). Nú má árangurinn ekki láta á sér standa!

Ég hitti þennan næringarfræðing í stórri stöð sem nefnist Heilsuborg uppi á Höfða. Þetta er veglegt hús með alls konar starfsemi, þar á meðal mathöll sem ég hef aldrei prófað. Ég fór einu sinni þangað í janúar, til að hitta sálfræðinginn, og þá var frekar rólegt um að litast í þessu stóra rými. Nokkrar hræður á biðstofu, ekki mikið meira. Í þetta sinn var annað uppi á teningnum. Stöðin var kjaftfull af alls konar fólki, flest af þeim með einhvers konar grímur, buff eða slíkt fyrir vitunum. Ég varð eiginlega hálf stressaður að koma þarna inn núna, gat varla hugsað um neitt annað en smithætturnar sem lágu eflaust í leyni við hvert handfang. Ég reyndi að standa álengdar á gulu biðstofunni, fjarri hinum sem þar sátu og biðu. Inni heilsaði ég næringarfræðingnum ekki með handabandi, hún bauð það ekki heldur. Þetta eru breyttir tímar.


Enn dásama ég nýja Spotifæið mitt. Playlistinn sem ég fjallaði um fyrir tæpum mánuði, „Deep African Techno“, er enn að borga sig. Á honum eru yfir þrjú hundruð lög og mér sýnist sem hann sé reglulega uppfærður. Þetta er eins og að vera með plötusnúð á launum sem eltir bara mig einan á röndum og hleður í ferska tóna fyrir mig við hvert tækifæri. Að geta komist inn í svona „curation“ er klárlega það besta við forrit eins og Spotify. Ég hefði átt að gera þetta miklu fyrr.


Ég er hugsi yfir mjög einföldu hugtaki: snertingu. Fólk hefur verið að pæla í því undanfarin ár hvaða áhrif almennt meiri einangrun geti haft á samfélagið. Það er, með tilkomu netsins og snjalltækjanna þá tölum við minna í símann, notum frekar aðra samskiptamáta. Og þá gefur augaleið að við hittumst sjaldnar, förum sjaldnar út á meðal fólks, og svo framvegis. Þetta er sívaxandi vandamál í flestum löndum heimsins, fólk getur jafnvel eytt öllum fullorðinsárum sínum vinnandi heiman frá sér og án þess að fara mikið út úr húsi, hvað þá að ná að rækta sambönd við annað fólk.

Ég get ímyndað mér að þetta sé líferni sem henti vel til ranghugmynda og algjörrar örvæntingar. Og nú bætist við mögulegur heimsfaraldur sem veldur því að þau okkar sem eru svo heppin að búa við reglulega snertingu ástvina og annarra, þau okkar sem eru kysst og knúsuð á hverjum degi, þau okkar sem sofa við hlið annarrar manneskju á hverri nóttu, gætum einnig þurft að draga verulega úr snertingum. Hvert leiðir slík breyting á samfélaginu? Maður spyr sig.

Þar til næst.