Kæri lesandi,

veistu hvert er besta ráðið við útþörf? Heimsfaraldur. Ég er góður heima hjá mér, takk.

Hvað er með unga krakka sem mæta í ræktina og leggja upp á gangstétt beint fyrir framan innganginn? Þú ert að mæta í ræktina, drullastu til að leggja aðeins lengra í burtu og labba hundrað metra.

Ég eyddi kvöldinu með Frank Ocean. Plöturnar hans eru annað hvort meistaraverk eða ókláraðar pælingar. Mögulega bæði. Ég sveiflast á milli. Í kvöld stóð ég á öndinni með hann í eyrunum. Frumlegur er hann.

Ég ætla í leikhús annað kvöld. Nema því verði aflýst. Það hefur ekki einu sinni hvarflað að mér að sitja heima ótilneyddur. Ég hef mætt í ræktina alla vikuna án þess að veikjast. Leikhúsið bítur ekki á mér.

Ég er fullur af pælingum. Fullt, fullt, fullt af hugsunum sem ég gríp og geymi. Lauma þeim svo inn í bundið mál þegar ég … leyfi mér að binda mál. Perfect is the enemy of the good.

Fyrir ári voru Demókratar Bandaríkjanna með fjölbreyttasta úrval forsetaframbjóðenda í sögu lýðveldisins. Smám saman tókst þeim að meitla burt alla nýsköpun og ferskleika og nú standa eftir tveir 77-78 ára gamlir hvítir menn. Annar þeirra mun fá að etja kappi við 74 ára gamlan hvítan forseta landsins í haust. Dæs.

Skeggið mitt er hárrétt akkúrat núna. Hættu að vaxa, takk. Og þá eru auðvitað sagðar fréttir af því að karlmenn ættu að raka andlitshár sitt til að minnka líkurnar á smiti.

Allt blaðrið um að það þyrfti að loka landamærunum, hleypa Kínverjunum ekki í heimsókn og slíkt. Bull og þvaður. Lítt dulinn rasismi. Og svo var það Íslendingur í skíðaferð sem bar veiruna til landsins. Allir sem hafa smitast þegar þetta er ritað eru Íslendingar sem komu með veiruna heim úr fríi. En endilega segið okkur aftur hvernig það hefði breytt öllu að build that wall.

Mín hugmynd um frelsi og takmarkalausa hamingju er ef einhver kæmi heim til mín að næturlagi og henti tveimur þriðju af dótinu í geymslunni okkar á meðan ég sef. Ég get ekki ímyndað mér neitt yndislegra.

Þar til næst.