Kæri lesandi,

ég fór í leikhús í gær. Helgi Þór rofnar í Borgarleikhúsinu. Það var … alveg frábært. Ég veit að ég var yfirlýsingaglaður í janúar eftir vonbrigðasýningu þar sem ég fór út í hléi en vinur minn þráaðist við og skipaði mér að koma á þessa sýningu. Ég er feginn að hafa hlýtt. Þetta var mjög fyndið, skemmtilegt og heillandi fyrir hlé og mjög kaþartískt eftir hlé. Mæli með.

Sýningin fór reyndar fram í skugga yfirvofandi samkomubanns vegna þess að smitleiðir kórónavírussins hafa færst upp á næsta plan hér heima. Fólk er nú farið að smitast innanlands, en hingað til hafa smitaðir allir komið með veiruna með sér frá útlöndum. Með innanlandssmitum er fjandinn laus, svo að segja, og hætt við að smitum muni fjölga hratt á næstu dögum og vikum. Fyrir vikið er líklegt að sett verði á samkomubann einhvern tíma í næstu viku. Fólk er nú þegar að aflýsa alls konar viðburðum, árshátíðum, Eve Fan Fest, frumsýningum kvikmynda og svo framvegis. Þannig að við nutum þess að vera í mannfjöldanum á leikriti í gærkvöldi, vitandi að það gætu liðið vikur eða mánuðir áður en maður gerir nokkuð annað en að fara í vinnuna og vera heima hjá sér.

Ég ætla einmitt í ræktina í fyrramálið af sömu ástæðu. Ef stöðinni skyldi skellt í lás á næstu dögum er eins gott að ná að lyfta nokkrum lóðum fyrst.


Ég hef unnið ritstörf í dag. Sko, ég setti reyndar ekki staf á blað, snerti ekki einu sinni penna eða lyklaborð fyrr en rétt í þessu til að blogga smá. En ég tók til í geymslunni hér heima og á meðan tók ég einnig til í hausnum á mér. Ég tók endanlega ákvörðun um að nálgast næsta handrit út frá mjög ákveðnum ramma. Ég ætla sem sagt að setja niður reglur, líkar þeim sem svo margir frægir höfundar hafa skrásett og deilt með heimsbyggðinni. Mínar reglur munu vera sniðnar að því að beina mér í ákveðna átt með handritið, eins konar Atriði Sem Ber Að Varast við handritaskrif, og er ég sannfærður um að ef ég fylgi þessum reglum alla leið muni það skila árangri. Reglurnar eru að verða klárar og þá er ég formlega uppiskroppa með afsakanir.

Ég tók líka aðra persónulegri ákvörðun. Ég ætla að skrifa þetta handrit fyrir mig. Mér liggur nákvæmlega ekkert á að gefa þetta út. Það er nefnilega annað sem ég hef fundið sterkt fyrir í vetur, því meira sem ég hugsa um það; ég elska að skrifa, allt ferlið, líka heilabrotin og blindgöturnar og þegar maður þarf að grafa sig út úr ógöngum og auðvitað líka þegar frábærlega gengur og innblásturinn virðist flæða viðstöðulaust um höfuð manns eins og vindur í helli, en mikið djöfulli er útgáfubransinn ömurlegur og refsandi. Jafnvel söluhæstu og nafntoguðustu höfundar landsins láta eins og þetta sé varla erfiðisins virði. Til hvers að refsa sér svona? Ég veit að ég verð seint ríkur og frægur fyrir að skrifa og þá er ekkert eftir nema vesen og kvíði. Mér liggur ekki svo mikið á að refsa sjálfum mér.

Ég ætla að skrifa þetta handrit fyrir mig. Svo sjáum við til. En ég er alveg eins á því að stinga fullkláraðri bók bara ofan í skúffu ef ég kemst svo langt og byrja á næstu sögu þar á eftir. Reyna ekki einu sinni að senda þetta frá mér. Af því að fuck that shit. Ég skulda engum að bera mig á torg og leyfa ókunnugu fólki að sparka í mig aftur eins og síðast. Ég skulda sjálfum mér hins vegar andlega heilsu og góðan nætursvefn. Þetta var auðveld ákvörðun.

Djöfull er ég orðinn þreyttur. Ég þarf að hætta að skrifa þessar færslur alltaf í seinasta kastinu á kvöldin. Ég ætla að spritta mig aðeins og fara að sofa.

Þar til næst.