Kæri lesandi,
ég fór út um víðan völl í dag. Veðrið var gott, úti var bjart og heiðskírt og sólin endurkastaðist af frosnum snjónum sem þekur land og byggð. Ég var með sólgleraugun, leið eins og gúmmitöffara sem þarf sífellt að útskýra af hverju hann gengur með sólgleraugu í mars, þótt þessar aðstæður skapi einhverja mestu birtu sem fyrirfinnst á norðurhveli jarðar.
Ég lét mig dreyma um iðagrænt gras. Bæði af því að þá verður vorið komið en líka til að réttlæta kóngablá sólgleraugun á nefinu. Maður má láta sig dreyma. Draumar eru litríkir, í þeim er þrá mín eftir sumrinu iðagræn eins og grasið.
Hana. Þetta var skáldskapur dagsins. Djöfulsins flugi náði ég þarna, maður lifandi! Bíð spenntur eftir tilnefningum til allra verðlaunanna.
Hvað gerðist svo meira áhugavert í dag? Ég vann smávegis í morgun. Svo gerðist ég latur og nennti ekki í ræktina, ákvað að fara á morgun en mundi svo síðdegis að ég er að fara með Kollu í fyrsta balletttímann sinn strax eftir vinnu á morgun svo að ég kemst ekki í ræktina. Svona fær maður það margfalt í hausinn að vera latur.
Svo var það fótboltinn. Ég horfði á tvo leiki í dag. Fyrst hló ég að Everton, bara þetta reglulega, og svo gerðu United okkur Púllurum greiða og unnu City. Manchester er rauð í vetur og Liverpool vantar bara tvo sigra í síðustu níu og þá má partýið hefjast. Reyndar gæti Liverpool unnið deildina án þess að gera rassgat, City spila tvisvar í deildinni áður en mínir menn eiga næsta leik og ef þeir vinna hvorugan þeirra er titillinn gulltryggður áður en Liverpool-menn reima næst á sig skóna í deildinni.
Þetta er komið, en það er samt spennandi að telja niður. Svo er líka gaman að horfa á fótbolta í sjónvarpinu því að grasið er alltaf iðagrænt í útlöndum!
(Vá, djöfulsins meistarataktar voru þetta. Ég tengdi fótboltann við inntak færslunnar þarna í blálokin, brought it all back to the start eins og hetjurnar segja.)
Þar til næst.