Kæri lesandi,

ég er að hlusta á hlaðvarp sem heitir Marlon and Jake Read Dead People. Í þessum þáttum spjalla rithöfundurinn Marlon James og ritstjóri hans Jake Morrissey um ýmsar bækur eftir rithöfunda sem eiga það allir sameiginlegt að vera dauðir. Það er eina reglan, í raun, bannað að tala um bækur eftir fólk sem er enn á lífi. Þessi regla þeirra er sprottin út frá þeirri skoðun James að það sé skemmtilegra að tala um bækur látinna höfunda því það sé auðveldara að tala illa um þá og verk þeirra.

Þetta eru skemmtilegir þættir. Ég held að ég sé að hlusta á lokaþáttinn núna, þann sjötta í röðinni. Hér taka þeir við spurningum frá hlustendum þáttarins og ljóstra upp alls konar umdeildum skoðunum um suma af frægustu höfundum síðustu tveggja alda. Mæli með.

Annað hlaðvarp sem ég er að hlusta á þessa dagana heitir Dolly Parton’s America. Hinn skeleggi Jad Abumrad, sem stýrir hinum góðu þáttum Radiolab, fjallar hér um líf og feril Dolly Parton frá ýmsum vinklum sem eru margir hverjir stórmerkilegir. Parton er pottþétt svona fræg manneskja sem fólk hefur tekið sem gefnum hlut og er kannski núna, með þáttum eins og þessum, að átta sig á hvers konar fjársjóður hún hefur verið fyrir bandaríska menningu í hálfa öld. Mæli einnig með.


Í gærkvöldi, þegar ég var búinn að skrifa færslu dagsins, datt ég í að skoða tölfræðina á síðunni, eins og ég geri stundum. Ég er að verða búinn að skrifa jafnmargar færslur á árinu 2020 (þessi er sú 60.) og ég skrifaði árið 2019 eftir að ég fór af stað í lok október (61 talsins). Í 61 færslum árið 2019 skrifaði ég hins vegar alls 35,248 orð, en í 59 færslum á árinu 2020 hef ég bara skrifað 31,219 orð. Ég er ekki að fara að skrifa fjögur þúsund tuttugu og níu orð í þessari og næstu færslu þannig að það má slá því sem föstu að ég er að skrifa minna per færslu frá áramótum. Tölfræðin segir mér að hver færsla á árinu 2019 inniheldur að meðaltali 578 orð en eftir áramót hafa þau aðeins verið 529 að meðaltali.

Ég veit ekki hvað veldur. Kannski er ástæðan sú að ég skrifaði svona 4-5 mjög langar færslur í nóvember 2019, þegar ég var nýbyrjaður og fullur af eldmóð og var með nokkur umfjöllunarefni sem höfðu beðið lengi eftir því að ég kæmi þeim í orð. En kannski er það af því að ég er aðeins að þreytast á að skrifa á síðuna. Ekki endilega þreyttur á að skrifa daglega, það finnst mér enn mjög fín tilhögun og ég mun halda henni áfram, þótt ég leyfi mér stöku sinnum að sleppa úr degi án þess að örvænta yfir því, en kannski er fullmikið að ætla að skrifa 500+ orð á dag. Ég les nokkrar bloggsíður sem eru uppfærðar daglega (ókei, þrjár). Ein af þeim heitir bókstaflega „500 orð á dag“ þótt sá síðuhaldari nái því ekki alltaf en hinar eru mjög sjaldan með svo mikinn orðafjölda í færslu. Það er ákveðin listgrein að uppfæra vefsíðu daglega með stuttum og snörpum texta og ná að gera það áhugavert á hverjum degi. Kannski er lausnin sú að prófa mig áfram með styttra form hérna í stað þess að hafa áhyggjur af orðafjölda. Ég pæli í þessu.

Annars stefnir allt í góðan dag. Ég tæklaði daginn mjög snemma, kláraði allt sem ég ætlaði mér að klára fyrir níu og nú er ég búinn að blogga líka. Úti er bjart þrátt fyrir skýjabakka (sjá mynd) og það var gott að keyra brautina í björtu í morgun. Það styttist í grænan gróðurinn, ég finn það á mér. Vorið er á næsta leyti. Síðdegis ætla ég að fara og horfa á litlu dóttur mína stunda fimleika í fyrsta skipti og í kvöld ætla ég að horfa á lokaþáttinn af The Outsider á Stöð 2. Á morgun mun ég svo nær örugglega skrifa um þá þáttaröð sem og True Detective 1 sem ég endurglápti fyrir hálfum mánuði.

Þar til næst.