Kæri lesandi,
ég horfði á lokaþáttinn af The Outsider í gærkvöldi. Fyrir 2-3 vikum horfði ég á fyrstu þáttaröð True Detective, þessa margfrægu sem er að mínu mati með því besta sem hefur verið gert í bandarísku sjónvarpi. The Outsider hefur verið „up there“ að mínu mati síðustu tvo mánuði. Ég hef horft á einn þátt vikulega, alltaf á mánudagskvöldum, og beðið spenntur eftir að sjá hvernig þessu myndi nú öllu ljúka. Ég var búinn að lofa sjálfum mér að hlaða í almennilegan pistil og bera kannski saman þessar tvær þáttaraðir og hvernig þær fjalla um sorg og eftirsjá, auk annarra umfjöllunarefna.
En svo kom þessi skítömurlegi lokaþáttur af The Outsider í gærkvöldi og þegar ég var búinn að hrista hausinn í dágóða stund fór ég að sofa, og þegar ég vaknaði hélt ég áfram að hrista hausinn. Og í allan dag hef ég bara ekki haft geð í mér til að skrifa eitthvað mikið um þessa þætti, né True Detective.
Þetta var einhver lélegasti lokaþáttur sem ég hef séð í nokkurri þáttaröð. Að mínu viti var þáttur númer 7 af 10 aðeins í slappari kantinum en allir hinir (1-6, 8-9) voru dýnamít sem hafði tekist að stilla öllum taflmönnum upp á rétta staði á borðinu fyrir lokaþátt sem lofaði góðu. En svo varð nú aldeilis ekki, loftið hljóp hratt úr þeirri blöðru og útkoman varð einn lélegasti og leiðinlegasti klukkutími af sjónvarpi sem ég hef þraukað í gegnum.
Þannig að, sorrý The Outsider, ef þú getur ekki lent vélinni skiptir engu þótt flugferðin fram að því hafi verið frábær. Ég mæli ekki með þessu, legg það ekki á nokkra manneskju að upplifa svo heiftarlega brostnar vonir.
True Detective heldur enn dampi. Ég horfði á það í fyrsta sinn í sex ár, eða frá því að þættirnir voru frumsýndir vikulega í sjónvarpi og allir stóðu á öndinni, og þeir voru jafnvel betri í þetta skiptið, svona þegar maður vissi hvert þetta stefndi allt saman og gat notið litlu hlutanna sem prýða hvern þátt. Horfið frekar á True Detective og sparið ykkur The Outsider. Helvítis dauði og djöfull.
Þar til næst.