Kæri lesandi,
þvílíkir dagar sem við erum að upplifa. Það er allt of mikið að gerast í einu, of mikið að frétta. Í hvert sinn sem ég endurhleð fréttasíður er búið að fresta nýju stórmóti í íþróttum, eða loka fleiri samgönguleiðum á milli landa/ríkja/álfa, og nú eru Tom Hanks og Rita Wilson komin með COVID-19 í Ástralíu, og nú er Trump búinn að loka á flug frá Evrópu, og þá riðar Icelandair til falls, og þá hefst hrunið báðum megin við Atlantshafið, og nú er búið að blása af Meistaradeildina (gott, Liverpool tapaði í gær) og svo, og svo, og svo …
Þetta er ótrúlegt ástand. Og ofan í þetta allt reið stór skjálfti yfir Þorbjarnarsvæðið við Grindavík og Bláa Lónið í morgun. Og enn standa kjaradeilur yfir, og forsetakosningar standa sem hæst vestan hafs, og, og, og.
Ég sit bara í mínum stól við mína tölvu, á minni skrifstofu og sinni minni vinnu. Á eftir ætla ég heim og vera með mínum dætrum og konu, og svo ætlar konan í bústað um helgina og þá ætla ég bara að vera inni með dætur mínar. Við munum spila og perla og kubba og horfa á teiknimyndir og lesa bækur og sofna saman í stóra rúminu. Þetta verður dásamlegt. Það verður svo bara að koma í ljós hvernig heimurinn fyrir utan húsið okkar lítur út á mánudaginn.
Ég svindlaði aðeins hér inni í gær og „bloggaði“ bara þrjú myndbönd með Mac Miller. Ég hef hlustað mikið á hann síðustu daga. Ég vissi ekkert hver þetta var, heyrði nafnið fyrst þegar hann lést haustið 2018 og vissi að hann hafði verið kærasti Ariönu Grande, án þess að hafa mikið fylgst með því máli. En ég var fyrir svona viku síðan að hlusta á einhvern playlista með ýmsu tónlistarfólki tengdu Frank Ocean og heyrði lag sem var aldeilis gott. Ég leit á skjáinn á símanum og sá að flytjandinn var þessi Mac Miller. Það kom mér á óvart því ég hélt að hann væri rappari, en þetta hljómaði meira eins og Elliott Smith í bland við The Streets eða eitthvað. Áfram hélt playlistinn og fljótlega heyrði ég annað lag með sömu rödd. Aftur var Mac Miller á ferð og aftur var ég hissa því þetta lag hljómaði ekkert eins og hitt sem ég hafði heyrt með honum. Ég fílaði þau hins vegar bæði og ákvað því að hlusta bara á Mac Miller um stund.
Ég fíla tónlistina hans í botn. Verst að stráksi dó svona ungur, það var mjög sorglegt að sjálfsögðu, en ég get ekki tekið það inn á mig þegar ég kynnist honum svona eftir á. Hæfileikaríkur var hann, svo mikið er víst, og nú í ársbyrjun kom út ný plata sem hann var að vinna að þegar hann lést og sú plata lofaði aldeilis góðu fyrir framhaldið, framhald sem verður að sjálfsögðu aldrei úr þessu. Þvílík sóun, þvílíkur missir.
Í gærkvöldi kláraði ég svo Black Light eftir Stephen Hunter. Hún var alveg frábær, sennilega best af þessum þremur bókum sem ég hef lesið eftir hann. Mér skilst að það megi kalla þetta feðga-þríleikinn og það passar alveg eftir að hafa lesið þessa bók. Í Point of Impact kynnumst við Bob Lee Swagger árið 1992. Í Dirty White Boys kynnumst við Bud Pewtie sem eltist við flóttamanninn Lamar Pye í Oklahoma. Í Black Light sameinast svo þeir Bob Lee og Russ Pewtie, sonur Bud, um að leysa ráðgátuna um morð Bob Lee, Earl Swagger, árið 1955, en það morð hóf eins konar atburðarás sem fléttaðist inn í fjölskyldusögu Pewtie-klansins sem náði svo hámarki sínu með ævintýrum Bud Pewtie í Dirty White Boys. Bob Lee og Russ lenda í honum kröppum við að reyna að rekja hina ýmsu þræði sem virðast á lausu í upprunasögu þeirra beggja, um leið og þeir reyna að komast að því hvernig sögur þeirra tengjast.
Bókin er alveg frábær. Nú hef ég lesið 1500 blaðsíður af sögu Swagger- og Pewtie-feðganna á þremur mánuðum eða svo, en aðallega síðustu tíu dagana þar sem ég drakk seinni tvær bækurnar í mig. Það er nóg af þessum feðgaþríleik en saga Bob Lee Swagger heldur áfram í næstu bók, Time To Hunt sem ég er þegar búinn að kaupa og ætla að reyna að lesa ekki of hratt á næstunni. Það gæti verið góð hugmynd að breyta aðeins til áður en ég les meira í sama „heimi“. Of mikið af því góða getur spillt.
Þetta er staðan í dag. Ég er með bókalesturinn á hreinu og vinnan gengur sinn vanagang, en fyrir utan litlu sápukúluna manns hringsnýst allt og enginn veit hvers konar atburðarás við munum upplifa næstu vikur og mánuði. Það er ágætt að vera með dagbók við slíkar aðstæður, þannig að ég mun áfram reyna að skrásetja þessa upplifun hér inn eftir bestu getu næstu daga.
Þar til næst.