Kæri lesandi,
ég er orðinn eldrauður á handarbökunum. Ég sé á netinu að það eru fleiri að lenda í þessu. Dætur mínar kvarta yfir þessu líka. Málið er að þegar maður er sífellt að bera sápu og sótthreinsandi á hendurnar á sér verða þær þurrar, skorpna upp og húðin lætur undan. Ég þarf eiginlega að reyna að þvo mér eins lítið og ég kemst upp með í dag til að jafna mig aðeins á þessu. Bera kannski húðkrem á handarbökin í staðinn.
Ástandið heldur áfram að vera eins og fjarlægur draumur af ódýrri bíómynd. Fólk er að deyja, þarna úti í heimi, og fólk er í alvöru vandræðum, og maður gerir sitt með því að vera bara heima með dæturnar og sjálfseinangra eins og það er kallað, hafa allan mögulegan fyrirvara á hegðun sinni. Samt hefur enn ekkert breyst hér, við vitum að tölfræðilega munu allir þekkja einhvern sem veikist, og líklega munu allir þekkja einhvern sem deyr, en það er ekki komið að slíku enn. Þetta er yfirvofandi, jafnvel á meðan það tröllríður samfélaginu og setur allt á hliðina. Þess auki mun þetta pottþétt leiða til fjármálahruns, og það verður að koma í ljós hverjir halda atvinnu eftir þetta og hverjir ekki, og svo framvegis. Samfélagið er einfaldlega í kaos, og á meðan sitjum við heima og horfum á teiknimyndir og Netflix. Ástandið er óbreytt, en samt ekki. Maður er fastur á milli.
Ég hef verið heima með stelpurnar mínar alla helgina. Hætti snemma á föstudag til að sinna þeim af því að konan mín fór í bústað, löngu plönuð ferð. Ég fór í Bónus í hádeginu á föstudag, þar voru tvær biðraðir inni í búðinni; önnur fyrir framan tóma salernispappírshillu. Starfsmaður trillaði vörubretti með meiri pappír inn í búðina, skar plastið utan af og fólk fór að taka einingar hjá honum áður en hann náði að raða þeim upp í hillu. Seinni röðin var meira hópur af fólki sem stóð við tóma brauðbakka frá Myllunni þangað til starfsmaður kom með meira brauð og útdeildi til þeirra. Ég tók bæði brauð og klósettpappír, vissi eiginlega ekki af hverju, en svona er hjarðhegðunin sterk. Kom svo heim með átján rúllur af klósettpappír og fór með þær inn í geymslu þar sem við blasti fullur lager af klósettpappír. Nú eigum við of mikið. Konan hló að mér.
Annars höfum við bara hangið heima. Ég fór með stelpurnar út í ísbíltúr í gær og við höfum gengið upp á fjallið hér í hverfinu en annars eru þær bara heima að púsla og spila við pabba sinn, horfa á sjónvarp og læra heima. Á morgun er svo starfsdagur, þá fær konan mín að vera með þær á meðan ég skríð í vinnu. Við reynum svo að deila álaginu næstu daga, þær þurfa pottþétt að vera eitthvað heima frá skóla á meðan gripið er til aðgerða til að takmarka samveru og virða tveggja metra bilið á milli einstaklinga.
Talandi um, ég keyrði foreldra mína á flugvöllinn fyrir hálfum mánuði. Þau flugu til Spánar í golfferð. Á fimmtudag var golfvellinum svo lokað og þau hafa eiginlega húkt „heima“ í húsi síðan, skoðað fréttir og reynt að fá úr því skorið hvort þau geti ekki örugglega flogið heim næsta miðvikudag. Það er ekki séns að fá fyrra flug heim, það virðast allir vera að hugsa það sama, og í gær settu íslensk yfirvöld Spán á lista yfir hættusvæði sem þýðir að þau þurfa pottþétt að fara í sóttkví þegar þau koma heim. Fríið góða hefur snúist upp í eitthvað allt annað, ætli sóttkvíin heima verði ekki meira eins og frí fyrir þau þegar þau eru sloppin heim?
Já kæri lesandi, við lifum fordæmalausa daga. Það hefur eiginlega verið stikkorð þessarar atburðarásar, fordæmaleysi. Þetta er með öllu fordæmalaust.
Þar til næst.