Kæri lesandi,
í fréttum dagsins er sagt frá því að lóan sé komin til landsins. Það mátti vart seinna vera, bara að heyra nafn hennar nefnt lyftir brúnum fólks talsvert. Við erum stödd í enn einni appelsínugulu veðurviðvöruninni þessa dagana, rok og leiðindi en það er orðið nógu hlýtt úti til að það nái ekki að snjóa. Þess í stað er bara hret á nóttunni og rigning á daginn. Snjórinn hörfar, hægt og rólega. Brátt verður ekkert eftir og vorið er handan við hornið. Mikið hlakkar maður til. Það er ekki á bætandi að vera á veðurvaktinni þessa dagana, ekki síst þegar göngutúrar og þess háttar útivera er nánast það eina sem fólk má gera utan heimilis í samkomubanninu mikla.
Annars erum við enn einhvern veginn við upphaf faraldursins, telja menn. Fólk er heima hjá sér, búið er að takmarka skólaveru barna og þess háttar. Í vinnunni sótthreinsa ég allt á morgnana áður en ég byrja að vinna og bíð og vona að enginn í kringum mig sýkist. Þá þarf maður að fara í sóttkví eins og svo margur annar. Það kemur eflaust að því, þýðir lítið annað en að vera tilbúinn ef/þegar slíkt ber að garði og undirbúa það að þurfa að vinna að heiman.
Ég fer svo út á flugvöll í kvöld og sæki foreldra mína. Þau eru að koma frá Spáni og fara beint í sóttkví. Það var smá púsl að stilla upp hvernig við kæmum þeim heim án þess að deila með þeim bifreið. Við börn tveggja para ætlum upp á völl á tveimur bifreiðum. Þegar gömlu settin koma út úr Leifsstöð bíður þeirra heitur og góður bíll og ég keyri hinn „skutlarann“ heim á mínum bíl. Þannig náum við að sækja án þess að fá þau í bíl með okkur. Kannski ekki kolefnisjafnaðasta lausnin en þetta verður að duga. Svo fara þau gömlu í sóttkví, maður hlær kannski aðeins og grínast með það en líklega eru þau bara á undan manni sjálfum.
Þar til næst.