Kæri lesandi,

ég átti tvö erindi inn í Reykjavík í dag. Þar voru í bæði skiptin mjög fáir á ferli. Ég fór út á flugvöll í gær að sækja foreldra mína úr Spánarflugi. Ég sat í bíl fyrir utan og fylgdist með sólbrúnum ferðalöngum arka út úr Leifsstöð með grímu fyrir andlitinu, í hlífðarvettlingum og með kerrur fullar af bjórkössum og öðru gúrmeti úr Fríhöfninni. Íslendingar eru neyslusjúklingar. Talandi um, það er að koma betur og betur í ljós hversu bilað þetta þjóðfélag er. Vestan hafs vilja menn helst enga ölmusu rétta þeim sem eru í mestri þörf en hlaða án atrennu í fleiri trilljóna björgunarpakka fyrir stórfyrirtækin. Trickle-down economy lifir! Austan hafs biðlar milljarðamæringurinn Richard Branson til stjórnvalda að borga sér líka milljarða til að halda flugfélaginu sínu á lífi. Þetta er sami milljarðamæringurinn og lögsótti heilbrigðiskerfið þar í landi fyrir fáránlegar sakir. Græðgin er gegnumsýrandi.

Ahem. Ekki of mikið fjármálaraus. Það er ekki kominn tími á slíkt, við fáum efnahagshrunið eftir hlé á þessari hádramatísku sýningu. Fyrir hlé erum við að einbeita okkur að veirunni. Mér finnst eins og fólk hér heima sé enn að taka þessu svolítið létt, hlaða bara í statusa og memes og svona. Gera grín og gott úr þessu. Það er eins og fólk átti sig ekki enn á því að flest okkar eru að fara að missa einhvern sem við þekkjum. Fólk mun deyja. Hingað til er fólk samt meira upptekið af lífinu í sóttkví/samgöngubanni heldur en því sem koma skal.

Svo eru það frestanirnar. Þær ættu að vera skýrasta vísbendingin um það hversu stórt þetta er orðið. Íþróttirnar eru farnar. Júróvisjón er að fara. Allt. Er. Lokað. Og við sitjum heima og hömstrum skeinipappír og póstum memes á netinu. Mér finnst afneitunin sterk. Kannski er það leið fólks til að ná utan um það sem er að gerast. Auðvitað er ekkert hollt að vera í geðshræringu yfir þessu allan daginn, það má vissulega alveg fara í göngutúr eða kveikja á tónlist og dansa smá, lesa bók eða hámhorfa eitthvað gott. En mér finnst við ekki vera að finna milliveginn ennþá.

Annars fékk ég einhvern hnút í hálsinn í dag. Vöðvarnir voru eitthvað að stríða mér, ég hef sennilega sofið skakkt síðustu nótt. Það er ekki stórmál, nema að stuttu eftir hádegi varð ég í svona tvær mínútur sannfærður um að þetta væri mín kórónaveira. Að þetta væru einkennin og ég væri nú bara að klára smitun án þess að hafa hreinlega tekið eftir því. Það rann þó fljótt af mér, þetta er bara vöðvabólga. En svona er að reyna að halda sönsum á fordæmalausum dögum, að reyna að missa ekki jafnvægið þegar maður nær engri heildarmynd utan um risastóra atburði.

Þar til næst.