Kæri lesandi,

ég horfði á Með Loga í síðustu viku í Sjónvarpi Símans. Dóri DNA var gestur vikunnar. Í lok viðtalsins sagði Dóri svolítið sem sat í mér á eftir. Hann sagði að við byggjum í helvíti, að hann hefði fattað það þegar hann gekk um í útlöndum í vetur. Við Íslendingar búum í helvíti, sagði hann, og við bara þjáumst og þraukum. Þetta sat í mér, og ég hugsaði um þessi orð á ný í morgun þegar ég keyrði óvænt inn í skafrenning og lægðarbarð á Sandgerðisafleggjaranum í morgun. Eins og það sé ekki nóg annað sem sækir að manni þá eru snjóflóðaviðvaranir á landsbyggðinni og bílar að skauta út af Reykjanesbrautinni í hríð og skafrenningi. Í dag er átjándi mars og þetta land ætlar bara aldrei, aldrei að leyfa okkur að sleppa.

Þetta er ekkert annað en ofbeldissamband. Við látum þetta yfir okkur ganga, kóum með þegar ofbeldinu lýkur og makinn sýnir á sér betri hliðarnar. Þá fyrirgefum við allt og dönsum eins og allt sé í stakasta lagi, eins og við vitum ekki fullvel að það er bara spurning um hvenær ekki hvort ofbeldið hefst að nýju.

Við búum í helvíti, sagði Dóri DNA. Við þjáumst og þraukum, sagði hann. Og svo brosti hann og sagði, en síðan kemur sumarið. Og þetta sat í mér, af því að svona tala þolendur í ofbeldissambandi. Svona tölum við um landið okkar hér lengst norður í rassgati á meðan það lemur okkur eins og harðfisk.

Og þá er ég búinn að tuða yfir veðrinu þessa vikuna.

Þar til næst.