Kæri lesandi,

og þá kom sólin! Allt er fyrirgefið, Ísland!

(Þar til næst.)


Ég sat og horfði á kvikmyndina Contagion í gær, af einskærum leiðindum … og forvitni líka, enda hefur myndin verið mikið á milli tannanna á fólki nú þegar alvöru heimsfaraldur geisar eins og sá sem lýst er í myndinni. Kórónuvírusinn er reyndar langt því frá jafn banvænn og sá sem mynd Steven Soderbergh lýsir. Ég man eftir að hafa séð myndina þegar hún kom út og gleymt henni jafnharðan. Mér fannst hún rosalegt miðjumoð þá, og gláp mitt í gær styrkti þá skoðun. Soderbergh virðist vera að reyna að gera bæði heimildarmynd um hvernig raunhæf viðbrögð við faraldri yrðu á heimsvísu og skrýtna B-mynd um framhjáhald sem veldur veirunni (skamm, Gwyneth Paltrow!) og falsfréttamennsku (skamm, Jude Law!) og sinnuleysi gagnvart yfirvofandi hættu (skamm dóttir Matt Damon og kærasti hennar!).

En fyrir vikið er myndin eiginlega hvorugt. Sem heimild er hún langt því frá nógu ítarleg og góð, þar sem hún beygir alltaf af til að reyna að græta okkur af því að frægu leikararnir í myndinni eru að deyja, en við náum heldur aldrei að tengja við þessar persónur af því að heimildarstíllinn er of kaldur og fjarlægur til að við kynnumst þeim. Myndin er hvorki né, og ég er einskis vísari sem gæti nýst mér í hinum fordæmalausa raunveruleika nútímans.


Annars sit ég á skrifstofunni. Það hefur verið nóg að gera í dag, sem er blessun. Tíminn líður hraðar þegar maður getur ekki setið og ýtt á Refresh eins og óður fíkill. Við erum bara tveir hér á skrifstofunni, sá þriðji er í sóttkví, og þetta er ansi stór skrifstofa. Á milli mín og félagans eru svona sex metrar og tvö skilrúm. Ég byrja alla morgna á að sótthreinsa, annan hvern morgun sótthreinsa ég skrifborðið mitt og allan búnað á því og hinn hvern morguninn sótthreinsa ég hurðarhúna og aðra helstu snertifleti á skrifstofunni. Við erum ansi sótthreinsaðir hér, félagarnir tveir og ég held að ég sé hvergi jafn vel geymdur upp á að forðast sýkingar eða að sýkja aðra. Ekki einu sinni heima hjá mér.

Nú er það helst í fréttum að fagfólk býst við að veiran toppi í kringum 9. – 10. apríl, eða eftir sléttar þrjár vikur. Ef við getum haldið áfram þessari rólegu kúrfu upp á við að þeim toppi, án þess að lenda í yfirþyrmandi hækkun eins og Ítalía og nú Frakkland eru að kljást við, þá er það vel sloppið, þótt auðvitað sé allt of snemmt að lýsa yfir einhverjum árangri. Þetta er enn bara rétt að byrja, dagur fjögur í samkomubanni og allt það. En alltaf þegar maður ætlar að tuða eitthvað yfir ástandinu hér heima þá skoðar maður fréttir frá Norður-Ítalíu og steinheldur svo kjafti. Elsku Ítalía, þetta fallega land með fallegu fólki. En það eru ekki allar fréttir neikvæðar, gærdagurinn var til dæmis sá fyrsti frá því að veiran braust út sem ekki nokkur Kínverji smitaðist. Núll smit í öllu Kína í gær. Þau eru að komast yfir það versta, tveimur mánuðum á undan okkur hinum eða þar um bil. Þetta er hægt.

Þar til næst.