Kæri lesandi,

pabbi sendi mér minningu í morgun á Andritinu (Fb). Einn úr hans kynslóð frá Flateyri tók fullt af myndböndum á sínum yngri árum og á einu þeirra gengur hann eftir Brimnesvegi og myndar mannlífið í sumarblíðu. Þar má sjá feðga koma hjólandi eftir mölinni, glaða í bragði og brosandi. Sá yngri er fimm ára og nýbúinn að læra að hjóla, eflaust hefur faðirinn farið með þann stutta í hjólatúr til að styrkja tæknina.

Ég man eftir þessu hjóli. Afi gaf mér það í afmælisgjöf ef ég man rétt, það hefur þá verið vorið ’85 þegar ég varð fimm ára, og í kjölfarið kenndi pabbi mér á það þarna í mölinni á Brimnesveginum. Þetta var gult og fallegt hjól, fullkomið í minningunni, en síðar spreyjaði pabbi það svart fyrir mig og svei mér þá ef Haukur bróðir fékk það ekki þegar ég var orðinn of stór á það. Hann hefur sennilega lært á það líka þegar ég var kominn á alvöru BMX, þá fluttur til Njarðvíkur. En þarna bjó ég á Flateyri, hvar frelsið var yndislegt.

Myndbandið er auðvitað í lélegri upplausn. Eldgömul spóla með filmu þolir illa að vera teygð upp í næga stærð fyrir skjáskot og því sést ekki framan í okkur feðgana. Sjá má klæðaburðinn, svarta hárið hans og ljósa hárið mitt (núna er hann grár og ég … gránandi, þá sjaldan að það sést í minn hárvöxt) og svo hjólin tvö. Eflaust hefur pabbi haft margt um að hugsa í þessari hjólaferð, hann hefur sennilega verið nýbúinn að vinna þarna en samt nennt með son sinn út að hjóla. Ég er hins vegar áhyggjulaus og skælbrosandi, þarf ekkert að sjá skýra andlitsmynd til að vita það.

Það er skrítið að sjá svona langt aftur í tímann, og það hreyfimyndir. 35 árum síðar fæ ég þetta myndskeið sent frá pabba í gegnum vefinn, og svo hringir hann í mig í gemsann og við spjöllum saman. Það er það eina sem hefur ekkert breyst öll þessi ár, pabbi er enn að passa upp á syni sína.

Þar til næst.