Kæri lesandi,

í dag var laugardagur og við eyddum honum öllum í tiltekt. Kolla var send til vinkonu sinnar að leika og á meðan tæmdum við hin eldri þrjú herbergið hennar út, þrifum hátt og lágt og röðuðum inn aftur. Notuðum tækifærið og „týndum“ nokkrum hlutum eins og ónýtu barnaeldhúsi og svona sem hún mun ekki sakna. Hún var enda hæstánægð þegar hún kom heim og sá „nýja“ herbergið sitt, þótt við hefðum í raun ekkert gert nema endurraða og þrífa og fjarlægja fullt af dóti sem hún var hætt að leika sér með. Það þarf ekki mikið til að gleðja sex ára barn.

Stikkorð dagsins í veirufréttum er „stigvaxandi“. Nú deyja næstum því þúsund manns á dag á Ítalíu, sem er alveg skelfilegt, en Kína hefur hins vegar ekki mælst nýsmit í þrjá daga. Ég man fyrir ekki svo löngu að maður las daglegar fréttir frá Kína og vorkenndi þeim óskaplega, án þess að gera sér grein fyrir því að þau væru einfaldlega á undan okkur í röðinni. Nú er röðin komin að Evrópu og þetta er víða verra en í austri. Og hryllingssögurnar eru byrjaðar að berast frá Bandaríkjunum sem miðað við mældar tölur stefnir í að lenda enn verra úti en Kína og Ítalía, jafn illa og Íran sem hefur mælst hæst hingað til. Þetta er bara hryllingur í allar áttir, sko.

Hér heima stefnir allt í hertara samkomubann og jafnvel útgöngubann á næstunni eftir að smitfjöldinn hefur stigvaxið síðustu tvo sólarhringa. Heil áhöfn togara í Vestmannaeyjum kom smituð að landi, fólk í Húnaþingi vestra ku vera með óvenju hátt smithlutfall og heill hópur sem fór af einhverjum undarlegum ástæðum saman á fjöll um síðustu helgi smitaðist. Sem rennir bara stoðum undir þann grun minn að fólk hafi ekki verið að taka þessu nógu alvarlega síðustu daga.

Svo er Lorenzo Sanz, fyrrum forseti Real Madríd, látinn úr kórónaveirunni og Albert prins af Mónakó er smitaður. Við erum rétt að byrja á þessum dauðsföllum, óttast ég.


Að öðru. Maður verður að drepa tímann og dreifa huganum í þessari sjálfseinangrun. Í gærkvöldi horfði ég á stórkostlega kvikmynd, Portrait de la jeune fille en feu eins og hún heitir á frönsku, eða Portrait of a Lady on Fire á hollýwoodísku, í leikstjórn Céline Sciamma sem skrifaði einnig handritið. Þetta er frönsk kvikmynd frá síðasta ári sem var á einhvern óskiljanlegan hátt ekki framlag Frakka til Óskarsverðlauna í vetur (það var myndin Les Misérables, og nú er ég mjög forvitinn að sjá hana ef hún þykir betri en Portrait).

Allavega, Portrait er eins konar ástarsaga en kannski meira stúdía á hvernig ást kviknar, hvað nærir hana og hvernig hún getur lifað af í mótvindi. Það eru engir spoilerar í þeirri setningu, það er alveg ljóst frá byrjun að myndin fjallar um tvær konur, önnur hefðardóttir og hin sú sem er ráðin til að mála hana, og um ástarsamband þeirra. Það er heldur ekki hægt að spilla þessari mynd, ég gæti sagt nákvæmlega frá því hvað fer fram og það myndi engu breyta. Galdur myndarinnar felst í því hversu ógeðslega vel þetta er allt gert, hvað hún tekur þig föstum tökum í byrjun og heldur þér og bara neitar að sleppa fyrr en yfir lýkur. Ég man ekki eftir að hafa verið jafn frosinn í stellingu fyrir framan skjáinn í lengri tíma eins og hér. Þegar lokaatriðið vék fyrir svörtum skjá andvarpaði ég og áttaði mig á að ég hafði verið að halda niðri í mér andanum í tæpa mínútu. Mig vantaði súrefni. Þvílík mynd. Mæli með.


Annars er ég að lesa mjög spennandi bók þessa dagana. Ég hef verið að bjástra við lokasprettinn í henni síðdegis og nú í kvöld og býst við að klára áður en ég sofna eða í síðasta lagi á morgun, þannig að þá veistu hvað ég skrifa um á morgun, lesandi kær. Ég veit ekki alveg hvað mér finnst um bókina, það er svo margt gott þarna en ég er enn að bíða og sjá hvernig þetta kemur allt saman á lokametrunum. Meira um það á morgun. Lofa.

Þar til næst.