I feel stupid and contagious.
Here we are now, entertain us.

Kæri lesandi,

við þurfum sem samfélag að brjótast undan ofbeldi nostalgíunnar. Nú eru í gangi einhverjir þættir á Stöð 2 þar sem sjónvarpsefni fyrir svona 15-25 árum er rifjað upp eins og um einhverja gullöld sé að ræða. Ég horfði á einn svona þátt með dóttur minni á mánudagskvöld, þar var rifjað upp þegar Beggi og Pacas unnu raunveruleikaþátt sem snerist um að innrétta fokhelda íbúð, og þegar Eyþór Ingi var „uppgötvaður“ í þáttunum Bandið hans Bubba. Mér fannst ekkert merkilegt að vera að rifja þetta upp og dóttir mín skildi ekkert í þessu heldur. Hún spurði hvort þetta hefði þótt svona merkilegt á sínum tíma og ég sagði nei, að þetta væri kannski svipað og að vera að rifja upp heimsóknarþætti Sindra Sindrasonar eftir fimmtán ár, eða þættina þar sem Sveppi og pabbi hans ferðast um heiminn á kostnað Stöðvar 2.

Skýrasta birtingarmynd nostalgíuofbeldisins er svo hversu oft ég heyri minnst á „fyrir mánuði síðan“ eða „fyrir bara nokkrum vikum“ núna þegar kórónavírusinn hefur snarhemlað öllu eðlilegu samfélagi hér á fróni og víðar. Þá setur fólk upp íbyggilega svipinn og segir, „hugsaðu þér að við vorum bara eitthvað að pæla í verkföllum og forsetakosningum Bandaríkjanna og Meistaradeildinni fyrir bara hálfum mánuði. Og svo breyttist allt.“ Vissulega hefur staðan breyst hratt og maður veit ekki hvort hægt er að troða andanum aftur ofan í lampann en fyrr má nú vera að ætla á methraða að láta eins og allt hafi verið geggjað fyrir bara hálfum mánuði. Hættum þessu bara, þetta er ósiður. Lífið er núna, og þegar maður vill virkilega rifja upp dýrmætar minningar þá er eiginlega búið að gjaldfella þær af því að maður er alltaf með annan fótinn í fortíðinni.


Talandi um núið. Maður gerir sitt besta til að láta tímann líða. Ég er enn í fullri vinnu, keyri daglega á skrifstofuna í Suðurnesjabæ, sit hér í þögninni og kem miklu í verk. Þetta er mjög næs, ég fékk nóg af því að sitja dögum saman heima hjá mér síðastliðið haust og er því ekkert spenntur fyrir því að þurfa að gera það aftur núna. En á meðan er Lilja heima með dætur okkar, nær allan daginn þar sem skólahald er skert hjá þeim. Þetta lendir mest á þeim þremur sem fara ekki langt nema bara í daglega göngutúrinn. Þannig að ég er eiginlega með smá móral yfir því að vera sá sem fær að fara út á hverjum degi. Það breytist þó eflaust fljótlega, maður bíður eiginlega eftir algjöru útgöngubanni.

Ég er í smá lestrarpásu, las yfir mig síðustu daga og er búinn að máta nýjar bækur við mig síðan ég kláraði Changeling um helgina en næ ekki alveg að nenna að opna neina af fullri alvöru. Það kemur, stundum er gott að taka sér pásu á milli. Á meðan hef ég horft á frekar slappa Netflix-mynd (Lost Girls) og fyrsta þáttinn af frekar áhugaverðum heimildarþáttum (Tiger King). Lexía þessa þáttar virðist vera sú sama og svo oft áður, að það er sko til mikið meira en nóg af klikkhausum í Bandaríkjunum.

Svo sakna ég íþróttaáhorfs. Ég myndi borga ansi háar upphæðir fyrir að fá að horfa á kappleiki í allri þessari inniveru, auðvitað skilur maður að það er ekki hægt og sennilega lengra en fólk skilur í að hægt verði að halda fjölmenna íþróttaviðburði á ný en samt finnst mér það sérstaklega grimmilegt einmitt þegar maður þarf að vera sem mest heima hjá sér að vera neitað um bestu dægradvölina. Lífið skiptir miklu meira máli en sportið, það er alveg á hreinu, en fjandinn hafi það ef ég mun ekki fagna eins og óður maður þegar íþróttirnar fara af stað aftur.

Þar til næst.