Kæri lesandi,
þetta eru skrýtnir dagar. Ég reyni að passa mig að taka þessu ekki of alvarlega, vera ekki dramatískur, en það er erfitt þegar vondar fréttir eru út um allt.
Ég keyri brautina á hverjum degi og undrast skortinn á umferð. Ég hoppa inn í vegasjoppu og hún er alltaf mannlaus, þar sem áður var biðröð á annatímum. Ég keyri framhjá Keflavíkurflugvelli, það er ískyggilegt að sjá allan flota Icelandair standa hreyfingarlausan á tveimur stöðum, hópar af flugvélum. Ég sé ekki lengur flugtök og lendingar yfir vellinum. Ég skamma sjálfan mig fyrir melódramað, hoppa svo á Facebook og sé að einhver sem ég þekki er kominn undir læknishendur. Ég anda rólega, reyni að láta tímann líða eins og allir aðrir, en það er erfitt að hugsa ekki um framtíðina.
Ég er ekki vanur svona kvíða, og ég fann ekki fyrir honum framan af marsmánuði. En síðan á mánudag hefur hann kitlað mig reglulega, helvítis kvíðinn. Þetta er ástand. Ég ímynda mér hvernig einhver mun lesa þessa síðu að mér látnum, fljótlega, ef þetta breytist skyndilega í skráningu síðustu daga eins hinna látnu. Ég ímynda mér hvernig ég mun lesa þessa síðu í fjarlægri framtíð og brosa að stressinu í sjálfum mér.
Ég ímynda mér að allt sé í lagi. Ég ímynda mér að það sé svona sem því lýkur. Svo reyni ég að hætta að ímynda mér því það gerir ekkert gagn.
Ég vildi að ég hefði eitthvað merkilegra að segja. Það hefur gert mér gott að skrifa næstum daglega á þessa síðu í vetur. Ég er allur að koma til eftir 2019, og ég var kominn í rjúkandi gang áður en veiran mætti á svæðið og eyðilagði alla framtakssemi. Ég hef ekki farið í ræktina í þrjár vikur og veðrið virðist staðráðið í að halda okkur öllum innandyra. Ég sef illa og borða verr. Og svo skamma ég sjálfan mig fyrir að gera ekki betur, spyr mig hvort ég geti nokkurn tíma betur ef ekki núna. Ef ekki með þessa hvatningu, hvenær þá?
Svo hringsnýst þetta allt. Ég sem ætlaði að lifa og njóta á þessu ári, bæta mér upp síðasta ár. Ég er langt því frá sá eini í þeirri stöðu, og ég er langt því frá að hafa það verst. Ég er bara að væla og vorkenna sjálfum mér. Get ekki annað.
Á morgun skal ég skrifa eitthvað skemmtilegra. Lofa sjálfum mér að skrifa eitthvað upplífgandi. En ég lofaði sjálfum mér líka að ljúga ekki inn á þessa síðu, og þess vegna er þessi færsla dramatísk. Af því að það er ekkert auðvelt að vera rólegur þessa dagana. Það er eins og það er.
Þar til næst.