Kæri lesandi,

ég vaknaði snemma í morgun eftir að hafa bylt mér í alla nótt og það fyrsta sem mig langaði til að gera var að skrifa aðra færslu á síðuna. Ég var ekki ánægður með sjálfan mig eftir tuðið í gærkvöldi, fór í sturtu og þótt hún hafi verið hressandi leið mér eiginlega ekkert betur á eftir. Svo lagðist ég beint á koddann en gekk illa að sofna. Mér fannst eins og það að skrifa þessi orð og birta þau, gefa hugsununum rödd, hafi magnað þær og þetta sótti allt saman hart að mér þar til ég náði loks að sofna.

Í morgun vaknaði ég svo miklu bjartsýnni, alveg sannfærður um að þetta væri nú ekki svo slæmt allt saman og að ég yrði að skrifa eitthvað bjartara hér inn. Maður rífst stundum við sjálfan sig með þessum hætti, er ósammála sjálfum sér. Það má.

Ein af fréttum dagsins er sú að Íslandi er hrósað í heimspressunni fyrir góð og áhrifarík viðbrögð við kórónaveirunni. Það er vel, það má líka hrósa yfirvöldum hér fyrir mjög vel skipulagða taktík og úrvinnslu hennar. Við erum lítið samfélag og eflaust margt auðveldara hér en í stærri löndum, en fólk hefur samt staðið sig vel. Það hefur meira að segja verið frekar lítið um tuð og óeiningu, jafnvel á Alþingi hefur fólk setið á sér og allir virðast róa í sömu átt, að skynsamlegum viðbrögðum við fordæmalausri þraut. Það er vel. Við eigum þetta til.

Eins er það sem ég tuðaði yfir í gær, hversu ískyggilega tómt og stopp og dautt samfélagið virðist vera, auðvitað líka merki hins jákvæða. Við erum að gera það sem okkur ber að gera, halda okkur heima og sýna þolinmæði og tillitssemi. Það er ekki neikvætt í faraldri að sjá göturnar auðar, það er jákvætt.

Það er hins vegar neikvætt fyrir efnahaginn. Það er ljóst að þetta mun hafa djúpstæð áhrif á samfélag okkar fjárhagslega séð, en það er ekki ljóst hve mikil því menn ná vart utan um hrunið sem blasir við. Uppsagnirnar eru hafnar og minni fyrirtæki eru þegar byrjuð að loka. Nánast allir munu lenda í einhverju, missa vinnuna eða verða fyrir óþægindum af skertri þjónustu o.sv.frv. Þetta er skelfingarástand, en ég hugga mig við að sjá hve sterk samstaða Íslendinga virðist vera á þessum tímum. Það eru allir að skrifa jákvæða hluti á netið, eins og fólk sé að faðmast og snertast á netinu fyrst það getur það ekki í raunheimum. Þetta er fallegt. Við getum alveg verið gott fólk þegar við viljum það.

Nú er föstudagur. Helgin er framundan. Ég ætla að hætta snemma í dag eins og síðasta föstudag, ef ég get, og fara heim til fjölskyldunnar. Ég hef spilað við dætur mínar á hverjum degi. Í gær kom ég heim úr vinnu og lagðist upp í rúm yngri dótturinnar. Við spjölluðum um allt milli himins og jarðar og svo las ég fyrir hana bókina Freyja framtönn. Svo borðuðum við fjölskyldan saman og að því loknu horfði ég á Mission: Impossible 3 með eldri dótturinni. Við ætlum að horfa á 4, 5 og 6 um helgina. Þetta eru dýrmætar stundir.

Já og svo var Pearl Jam að gefa út plötu í dag. Gigaton er komin út, fyrsta plata þeirra í sjö ár. Það hefur ansi margt breyst síðan Pearl Jam gáfu síðast út plötu og ég get ekki annað en fagnað því að síðasta risaeðlan frá Seattle skuli rísa upp á afturfæturna og öskra með látum hér rétt á meðan allt fer til andskotans. Ég stefni á hlustunarpartý síðar í dag.

Anda inn. Og. Anda út. Við þraukum þetta saman, verðum bara að láta dagana líða. Saman.

Þar til næst.