Kæri lesandi,
tíminn líður. Einhvern veginn líður hann. Stundirnar safnast upp, verða að dögum sem verða að tímabili, og áður en maður veit af er fólk farið að tala í áföngum. Nú erum við víst „rúmlega hálfnuð“ samkvæmt sóttvarnarlækni, en aðrir segja að við séum rétt að byrja, eða á leiðinni upp brekkuna. Mér finnst við hvorki nálgast né fjarlægjast áfangastaðinn. Þetta er frekar eins og við séum að hringsóla yfir flugvellinum og bíða eftir að stormurinn lægi.
Hvað um það. Dagarnir. Þeir eru einsleitir, þótt við gerum okkar besta til að brydda upp á ýmsu. Í dag ákváðu stelpurnar og mamma þeirra að safnast saman gegn mér í Drottningaspilinu, sem er það langvinsælasta þessa dagana. Í hvert sinn sem ég vakti drottningu unnu þær saman í að ræna henni af mér eða svæfa hana á ný. Ég endaði langneðstur. Við fórum í ísbíltúr, ætluðum í Ísbúð Garðabæjar en þegar við komum á Garðatorgið var aragrúi af fólki á gangstéttinni og biðröð út úr dyrum í ísbúðinni. Ég skil ekki fólk. Heyrir það ekki skammir yfirvalda á hverjum degi? Er því alveg sama? Ég keyrði út af stæðinu og fór með stelpurnar í lúgusjoppu í staðinn. Þar var afgreiðslukona sem tók niður pöntun okkar (þrjá súkkulaðisjeika). Ég borgaði fyrir þá og hún fór að útbúa, kom svo aftur til baka með þá alla en hún var ekki í hönskum. Hafði sett rörin ofan í og ég spurði hana hvort ég ætti að sótthreinsa rörin líka fyrst hún var ekki í hönskum. Hún sagði að það væri mitt mál og rétti mér þá. Ég sótthreinsaði, en lofaði um leið sjálfum mér að ef eitt okkar sýnir einkenni veirunnar á næstu dögum fer ég og brenni þennan stað til grunna.
Þetta er annars bölvaður línudans. Maður sveiflast á milli þess að taka þessu allt of alvarlega, eins og ég gerði sennilega í ísbíltúrnum, og þess að gleyma sér og gerast sjálfur kærulaus. Þessi truflun á öllum daglegum rútínum er bara erfið. Maður gleymir sér á hverjum degi, eins og þegar ég tók í höndina á viðskiptavini á skrifstofunni fyrir svona tíu dögum og tókst á einhvern undraverðan hátt að klóra mér í nefinu áður en ég fattaði hvað ég hafði gert. Ég fór í þrjár sturtur þann daginn og baðaði mig upp úr spritti.
Í kvöld horfðum við svo á fimmtu Mission: Impossible myndina. Þetta hefur tekið fjóra daga, við horfðum á fyrstu tvær á miðvikudagskvöldið. Gunna er alveg óð í þetta og gefur okkur foreldrunum ekkert frí. Við horfum eflaust á þá sjöttu og nýjustu annað kvöld og þá er því lokið.
Í gær hlustaði ég á Gigaton, nýjustu plötu Pearl Jam. Ég er mjög hrifinn af henni, hlustaði aftur í morgun yfir rakstrinum og komst í stuð. Í gær hlustaði ég líka á fyrsta lag Bob Dylan í mörg ár, sextán mínútna ljóðaraul í anda Leonard Cohen sem heitir „Murder Most Foul“ og fjallar um morðið á JFK. Mér fannst eiginlega ekki mikið til koma, hann er megnið af tímanum bara að nefna hitt og þetta. Lagið breytist ekkert, er raunar alveg drepleiðinlegt og syfjulegt, og textinn býður ekki upp á neina innsýn eða upplýsingar. Hann er bara að tína til hluti, hefði allt eins getað staðið í eldhúsinu og nefnt hlutina sem hann sá þar.
Hins vegar hef ég verið alveg heltekinn af tónlist Mac Miller síðustu daga. Ég nefndi hann á síðunni fyrir rúmri viku eða svo, í tveimur færslum. Mér finnst algjörlega grillað að einhver sem ég þekkti ekkert fyrir tveimur vikum sé mér svo hugleikinn núna. Öll hans saga. Ég fattaði að hann var kærasti Ariönu Grande fyrir þremur árum þegar fólk dó í hryðjuverkaárás sem var framin við lok tónleika hennar í Manchester-borg. Hann var með henni á sviði á One Love-tónleikunum sem hún hélt í kjölfarið í Manchester, þau sungu dúett af einni af hans plötum og svo flutti hann annað lag sem ég greip ekkert þá. Sennilega voru það fordómar en ég gaf litlum, hvítum rapparastrák með fullt af tattúum út um allt engan séns. Pældi ekkert í honum. Ég pældi heldur ekkert í honum þegar Grande hætti með honum og byrjaði skömmu seinna með grínistanum Pete Davidson.
Sumarið 2018 tilheyrði þeim, þau voru slúðurpar þess tímabils en á meðan var Miller, mér enn algjörlega ókunnugur, að vinna að nýjum plötum sem áttu að mynda þríleik. Í vikunni sem sú fyrsta af þremur kom út, Swimming, í ágúst 2018, trúlofuðu Grande og Davidson sig. Ég get rétt ímyndað mér hvernig Miller leið, ekki síst þar sem sú plata er að miklu leyti uppgjör hans við samband sitt og Grande. Hann er svakalega hreinskilinn, óvæginn og gagnrýninn á sjálfan sig, en hann er líka bjartsýnn á framtíðina, á að hann muni geta sigrast á djöflum sínum og jafnvel geti þau átt annan tíma saman í framtíðinni. En það tók varla nokkur maður eftir því þegar þessi stórgóða plata kom út, ekki utan aðdáendahóps hans. Fólk var of upptekið af Grande og nýja, skínandi unnustanum hennar. Nokkrum vikum seinna var Miller dauður, tók inn of stóran skammt, sennilega óvart en það veit enginn fyrir víst.
Dauði hans sló á hamingju Grande og Davidson og Davidson hefur játað í viðtali eftir á að samband þeirra hafi verið dauðadæmt eftir að Miller lést. Þau entust í mánuð í viðbót, svo sagði Grande honum upp og hélt áfram með líf sitt. Nokkrum mánuðum síðar gaf hún út smellinn „Thank u, next“ þar sem hún syngur um það hversu þakklát hún er fyrir sinn fyrrverandi. Fólk eignaði Davidson það að vera umfjöllunarefni þessa lags en nú þegar ég hef „kynnst“ Mac Miller aðeins er augljóst að hún er að syngja um hann. Davidson var bara reboundið en fólk lét eins og stóra ástin í lífi hennar hafi varla verið til.
Ég hef ekki lesið svona mikið slúður í mörg, mörg ár. Það er kannski besta lýsingin á því hversu áhugasamur ég er um Miller og tónlist hans. Ég meika bara ekki þessa sögu. Swimming var samt gríðarlega jákvæð plata á heildina litið, en hann var að vinna að plötu tvö í þríleiknum og eflaust byrjaður að leggja drög að þeirri þriðju líka, þegar hann lést. Plata tvö (og sú síðasta sem mun koma út) var kláruð af Jon Brion framleiðanda og kom loks út í janúar. Hún er rólegri, chillaðri og daprari einhvern veginn. Ef Swimming var stórt stökk hip-hopparans frá því sem hann hafði gert áður er Circles algjört flugtak yfir í nýjar víddir. Hún er algjört music box, hvert lag er engu öðru líkt og þau eru einhvern veginn öll ‘standout tracks’ eins og það er kallað. Ég hef hlustað mikið á allt hans efni síðustu tvær vikurnar en ég kemst varla yfir Circles. Hún er eins og tuttugustu og fyrstu aldar Sketches for My Sweetheart The Drunk með Jeff Buckley. Miller lofaði svo ógeðslega góðu sem tónlistarmaður og ég hafði ekki hugmynd um það fyrr en rúmu ári eftir dauða hans. Og nú sit ég og fæ ekki nóg af tónlist hans og harma það sem hefði getað orðið. Þvílíkur missir.
Miller fær heiðurssess á síðunni, ég er með bæði mynd af honum og tilvitnun hér til hægri. Hann hjálpar mér að láta dagana líða, safnar þeim upp þar til þeir verða að tímabili, þar til ég get hugsað í áföngum. Það er áfangi út af fyrir sig.
Þar til næst.