Kæri lesandi,

þá er enn ein helgin að baki og maður skríður, þreyttur á inniverunni og með þrútið andlit, á skrifstofuna á mánudagsmorgni. Það bar reyndar til tíðinda í morgun að ég keyrði brautina á sumarlegum strigaskóm og fór ekki í úlpu eða jakka út úr húsi, enda hlýtt í veðri og allur snjór farinn eftir rigningar helgarinnar. Það á að rigna meira næstu daga og svo er vorið bara komið. Ég hef ákveðið það og kunngjört. Svo skal verða.

Um helgina las ég teiknimyndasögurnar Trees eftir Warren Ellis og Jason Howard. Í þessum sögum koma risavaxin tré utan úr geimnum og lenda á jörðinni, án þess að skeyta nokkru um hvað þau eyðileggja eða hvaða líf tapast við lendingu þeirra. Eitt þeirra traðkar sér til dæmis niður á miðri Manhattan-eyju sem kostar fjölmörg mannslíf og röskun á allri þeirri borg. Svo líða árin og þessi tré standa bara þarna, óhagganleg. Enginn er neinu nær um ástæður komu þeirra né fyrirætlanir, eða hvort trén meini yfirhöfuð nokkuð með komu sinni. Þau eru bara þarna, lifa sínu lífi. Ekkert bítur á þeim en þau svara heldur engu.

Það var við hæfi að lesa þessar sögur núna. Náttúran getur verið ósveigjanleg og skeytir litlu um það sem við köllum harmleiki. Veirur og risatré úr geimnum. Þetta fer sínu fram án fordóma eða tillitssemi. Reyndar eru sögurnar ekki búnar, Ellis er að skrifa næstu blöð og ég get vonandi lesið framhaldið á næsta ári. Ég hef talsverðar mætur á Ellis, það verður að segjast, hvort sem um er að ræða skáldsögur hans, sjónvarpsþætti (hann skrifar Castlevania-teiknimyndirnar á Netflix) eða það sem hann er frægastur fyrir, teiknimyndasögurnar. Hans hugarheimur er einhvern veginn minn líka. Mæli með.

Annars er frá litlu að segja í dag. Það er hættan þegar við sitjum öll heima hjá okkur og gerum það sama, dag eftir dag, án tilbreytingar. Ég er til dæmis farinn að sakna þess óskaplega að komast í sund, gæfi ansi margt til að fá að stinga mér ofan í djúpu laugina eftir vinnu í dag. En ég gæfi sennilega enn meira til að mega faðma mömmu mína sem klárar sína sóttkví í kvöld. Svona eru dagar samkomubanns í viku þrjú.

Þar til næst.