Kæri lesandi,
ég er hugsi yfir stuttu viðtali sem ég greip í lok Silfursins á RÚV sl. sunnudag. Þar var til tals sérfræðingur í áhættugreiningum. Hún talaði um að hörmungar eins og þær sem ný dynja á okkur kæmu í þremur bylgjum; sú fyrsta er þá veiran sjálf sem gengur yfir, smitar og drepur, önnur bylgjan eru efnahagslegu áhrifin sem hljótast af veirunni og þriðja bylgjan eru svo andlegu áhrifin á bæði samfélagið í heild og einstaklinga innan þess.
Ég hef hugsað í tvo daga um þessa þriðju bylgju. Þegar veiran er að baki, þegar við höfum vonandi fundið mótefnið og bólusett samfélagið og hjól atvinnulífsins eru farin að snúast á ný, þegar efnahagshrunið er komið í ljós og hægt að byrja að byggja upp aftur það sem hefur tapast, hvað situr þá eftir?
Sum atriðin sem manni detta í hug eru stærri en önnur. Hvað er til dæmis langt þar til hægt verður að hleypa fólki aftur saman í stórum hópum? Verða allar íþróttir leiknar fyrir luktum dyrum næsta árið eða lengur? Þarf að aflýsa viðburðum á borð við sjómannadegi, 17. júní-fögnuði og útihátíðum í sumar? Verður öllum tónleikum aflýst út árið, má fólk ekki fara aftur á veitingastaði, eru líkamsræktarstöðvar og hópiðkun almennt bara úr sögunni? Eða skríða þessir hlutar tilverunnar aftur í gang eftir langa fjarveru?
Og hvað með sálræna þáttinn? Þegar byrjað verður að hleypa fólki aftur í stúkur íþróttavalla, verður aðsóknin minni? Þorir fólk yfirhöfuð að mæta, þótt búið sé að segja því að það ætti að vera í lagi? Hvernig eiga allar fermingarnar að fara fram í haust? Á ég að mæta í þær og heilsa ættingjum mínum með olnbogum, eða verða faðmlög í lagi? Verður ástin sýnd en ekki gefin?
Og svo eru það enn stærri spurningar. Hversu mikið af fólki mun þjást af sýkla- eða víðáttufælni eftir þetta? Hver verður hræðsla fólks við fjölmenni eða snertingu, og hvaða áhrif mun slíkt hafa á t.d. uppsetningu vinnustaðarýmis? Hvernig mun samfélag okkar breytast ef þess háttar kvillar aukast til muna á meðal okkar?
Þessi þriðja bylgja er mér hugleikin. Skilaboð sérfræðingsins voru skýr, að jafnvel þótt við komumst yfir veiruna sjálfa á endanum og jafnvel þótt efnahagurinn taki svo við sér á ný að einhverju tímabili loknu, þá muni langtímaáhrifa Covid-19 á samfélagið gæta miklu, miklu lengur en okkur grunar.
Ljósið í myrkrinu er á móti það að ég finn ekki fyrir neinum slíkum röskunum. Ég get ekki beðið eftir að fara aftur í leikhús, í bíó, á tónleika eða íþróttaviðburð. Og ég get ekki beðið eftir að hitta fólkið sem er mér kært á ný. Ég ætla að knúsa alla sem ég hitti um leið og ég get það.
Þar til næst.