Kæri lesandi,
það er ekki frá neinu að segja. Ég er ansi góður í að láta dagana líða, hef enda gert það svona fimmtán þúsund sinnum. Ég les bækur, er einhvern veginn alltaf með fleiri en eina og tvær í gangi í einu. Ég horfi á sjónvarpsefni, aðallega með eldri dóttur minni þessa dagana þar sem konan mín er ekki að nenna að horfa á “okkar” þætti. Ég leik við dætur mínar og tapa reglulega í spilum, alveg óvart. Ég fer í vinnuna, það endist í þriðjung úr sólarhring. Ég hlusta á tónlist, ofboðslega mikið á tónlist, ég er eiginlega alltaf að hlusta á tónlist. Ég passa mataræðið en svindla samt reglulega, ég fer út að ganga nema þegar veður er vont sem er ALLTAF. Ég tala við vini mína í síma og sendi þeim asnaleg snöpp og skilaboð. Ég panta mér rafbækur og læt mig dreyma um að komast til útlanda til að versla mér fleiri peysur. Ég passa mig að telja ekki dagana.
Í kvöld horfði ég á þátt um klassíska leiki í enska boltanum í sjónvarpi Símans. Man Utd unnu dramatískan sigur á útivelli gegn Man City vorið 2013. United komust í 2-0 í fyrri hálfleik en City jafnaði áður en Robin Van Persie tryggði þeim rauðu sigur með dramatísku marki í uppbótartíma, beint úr aukaspyrnu. Svo sá ég markasyrpu með Willian og Eden Hazard hjá Chelsea, og loks dramatískan sigur Liverpool á Tottenham vorið 2013. Svona gekk þetta í hálftíma. Ég fékk fótboltaskammt, gat lifað mig inn í sýnishorn úr leikjum sem ég man ekki hvernig fóru, gat rifjað upp hvað sumir leikmenn voru frábærir (hefur gleymst) og aðrir ofmetnir (mega gleymast). Það er vægast sagt glatað að hafa ekki íþróttir í beinni í allri þessari sóttkví. Ég gæfi ansi mikið fyrir eina umferð í enska eða spilahelgi í NBA-deildinni um helgina.
Í dag sótti ég líka þrjú forrit og fannst ég vera að svíkja eitthvað loforð við sjálfan mig. Zoom, fyrir fjarfundina, Notion til að geta unnið “með” fólki úr fjarska og Slack til að geta spjallað um vinnuna. Notion finnst mér reyndar líta nytsamlega út en hin tvö eru svartidauði, algjört corporate speak. Fólk með einhverja virtual backgrounds fyrir aftan sig í Zoom, og Slack er með ljótari forritum sem ég hef séð enda old school og sakna AIM. Get ekki svona forrit, en þau eru ill nauðsyn ef maður ætlar að vinna með fólki án þess að hittast í eigin persónu árið 2020.
Í gær horfði ég á kvikmyndina The Way Back með Ben Affleck í aðalhlutverki. Hún er … góð. Ekkert meira en það, en það er betra en margt. Mér fannst hún of stutt, frábær í 75 mínútur en síðasti hálftíminn reynir að gera of mikið svo að hún endar á að stikla á stóru yfir ansi mikilvæga atburðarás í lífi söguhetjunnar. Allt sem ég sá var gott en ég hefði viljað fá svona tuttugu mínútur til viðbótar. Affleck er mjög góður enda umfjöllunarefnið óþægilega nálægt hans lífi síðustu misserin.
Á morgun er svo annar dagur. Þá ætla ég eflaust að lesa meira, horfa á aðra kvikmynd, spila við dætur mínar (og tapa), hringja símtöl og vinna vinnuna mína, og hlusta á tónlist af því að Guð forði mér frá þögninni.
Annars góður. Ég hef það í alvöru rosalega gott, er svo lukkulegur með líf mitt, þrátt fyrir tuðið í mér á þessari síðu. Ég get ekki að því gert, mér finnst bara svo gaman að tuða.
Þar til næst.