Kæri lesandi,

ég er svolítið góður með mig í dag. Þegar veiran skall á hrukku nokkrar hræður sem ég þekki og/eða fylgi á samfélaginu í gang og lýstu því yfir að þau ætluðu að blogga daglega, eða reglulega allavega, í inniverunni. Og ég hef fylgst með alveg fimm eða sex bloggsíðum sem hafa verið nær daglega uppfærðar í mars. Það er skemmst frá því að segja að þessar síður hafa misst skriðþungann og eru farnar að deyja út aftur, jafnóðum og þær lifnuðu við. Þetta var reyndar skemmtilegt tímabil, eins og að fara fimmtán ár aftur í tímann þegar maður gat lesið einhver 30-50 nýuppfærð blogg á hverjum morgni. Bloggrúnturinn eins og hann var kallaður var góður með morgunkaffinu, maður gat fengið skemmtilegar uppfærslur frá skemmtilegu fólki eða fylgst með vinum og vandamönnum. En svo kom Andritið og fólk hópaðist þar inn og fór að skrifa statusa í stað bloggfærslna.

Í dag les ég tvær bloggsíður, nákvæmlega tvær, sem eru uppfærðar daglega. Þessar tvær klikka nánast aldrei, kannski nokkra daga á ári, og önnur þeirra er íslensk. Ég set ekki hlekki á þær hér enda enn í feluleik, en þær eru góðar og skemmtilegar. Ég þekki fólkið sem heldur þeim úti ekki neitt en mér finnst skemmtilegt að lesa. Ég væri alveg til í nokkrar svona bloggsíður í viðbót.

Nema hvað, ég er sem sagt góður með mig af því að hér er ég enn eftir tæplega hálft ár og uppfæri daglega, svona mestmegnis. Það er eiginlega eina tölfræðin sem ég pæli í á þessari síðu, hvort ég nái ekki örugglega allavega 26 af 30 dögum í mánuði eða svo. Mér finnst gott að þrýsta á sjálfan mig að skrifa daglega, jafnvel þótt ég hafi ekkert sérstakt umfjöllunarefni þann daginn, af því að þetta er eins og að mæta í ræktina. Þú ert ekki alltaf að keppa á stórmóti, aðalatriðið er að mæta og hreyfa sig. Ég er að mæta og hreyfa mig flesta eða alla daga mánaðarins. Þetta heldur mér gangandi, heldur mér heitum ef eitthvað annað skyldi glæðast og ég ákveða að hjóla í annað handrit eða þvíumlíkt.

Þangað til læt ég mér nægja að safna hugsunum og atburðum inn í þessa dagbók, þessa vefdagbók, þessa vefbók, þetta weblog eða blogg. Ég er þraukarinn, hef nú sigri hrósandi enst lengur en allir þeir sem reyndu í mars en gáfust upp. Ég er bloggmeistarinn og sjálfumglaður eftir því.

Næsta markmið er að skrifa eitthvað af viti á þessa síðu, en það bíður betri tíma.

Þar til næst.