Kæri lesandi,

í gær fór ég beint í daglega göngutúrinn eftir vinnu, svo í sturtu, og svo kveikti ég á Netflix. Ég horfði á Netflix fram yfir miðnætti, kláraði heila þáttaröð frá upphafi til enda, gerði bara örfáar pásur til að sinna heimilishaldi og svæfa yngri dóttur mína. Hún var sem betur fer dugleg að sofna við engilfríðan söng föður síns svo að ég var ekki of lengi frá sjónvarpinu.

Ég horfði á fyrstu þáttaröð af Netflix-syrpunni Sunderland ’til I die. Alla átta þættina. Ég vissi af þessum þáttum, þessi fyrsta þáttaröð kom út fyrir ári en þá var bara svo mikill fótbolti í sjónvarpinu að ég nennti ekki að horfa á þetta. En nú er enginn fótbolti í sjónvarpinu og önnur þáttaröðin af þessari syrpu var að koma út í vikunni. Ég var minntur á þessa þætti við útkomu nýju syrpunnar og ákvað í þessu fótboltafráhvarfi að horfa. Og ég gat ekki hætt.

Þetta eru heimildarþættir þar sem myndavélar fylgjast með rekstri og afrekum enska knattspyrnufélagsins Sunderland AFC frá vorinu 2017, þegar liðið féll úr ensku Úrvalsdeildinni, og fram á vorið 2018 þegar örlög þeirra í næstefstu deild réðust. Það er skemmst frá því að segja að þeir féllu aftur, annað árið í röð, sem gerist nær aldrei. Ég er nokkuð viss um að þegar þáttagerðarteymið samdi við Sunderland um aðgang að félaginu grunaði þá ekki að þetta yrði lið sem væri fallið úr Úrvalsdeildinni, hvað þá að þau myndu í raun fanga þarna íþróttafélag í frjálsu falli. Það er með ólíkindum hvað reksturinn gengur illa, alls staðar virðast pottar brotnir og leikmenn gera þeim erfiðara fyrir við hvert tækifæri. Maður sér leikmenn og þjálfara en stjörnur þáttanna eru starfsfólk klúbbsins og stuðningsmenn liðsins, fólkið sem getur ekki hætt og farið annað ef illa gengur, eins og leikmenn og þjálfarar gera. Kona nokkur, stuðningsmaður Sunderland, kemst vel að orði í einum þættinum þegar hún segir að þetta félag sé eins og vonlaus maki sem hún geti ekki skilið við. Þetta fólk á betra skilið en það sem félagið hefur gefið þeim síðustu ár.

Þetta eru frábærir þættir sem eru að bjarga mér í fótboltaleysinu. Ég ætla að horfa á seinni þáttaröðina um helgina.

Þar til næst.