Kæri lesandi,

hér að ofan gefur að líta nýjasta skrifstofustássið. Í tiltektinni miklu inni hjá yngri dóttur minni fyrir tveimur vikum fannst þessi forláta WOW Air flugvél grafin innan um bangsa og dúkkur á hillu nokkurri. Sú yngsta vildi ekkert með vélina hafa og við létum hana því „hverfa“. Ég setti hana í skottið á bílnum mínum og tókst svo að gleyma henni þar í tvær vikur. En nú er hún loksins komin þangað sem ég ráðgerði, hingað á skrifstofuna þar sem hún situr á stalli, í eilífu flugtaki, klifrandi upp til skýjanna, til minnis um eilífa bjartsýni hinna framtakssömu. Mér finnst við hæfi á þessum síðustu og verstu að þessi vél sitji hér og minni okkur öll á hvað þetta er brothætt allt saman. Ég stefni á að setja IcelandAir vél við hliðina á þessari við fyrsta tækifæri.

Ég fór að sofa í gærkvöldi hugsandi um svolítið. Ég ætla að segja frá því á eftir. En fyrst ætla ég að segja frá því að ég hugsaði um annað í morgun á leiðinni suður með sjó. Ég spurði sjálfan mig hvað sé það skrýtnasta sem ég hef gert í samkomubanninu. Hvernig hef ég stytt mér stundir? Ég gæti fjallað um það að ég hef lesið furðulítið (það er erfitt að draga athyglina frá stanslausum ágangi fréttaflutnings af Ástandinu) eða talið upp allt sem ég hef glápt á (einhvern veginn verð ég að fylla íþróttaleysið). En það sem er kannski skrítnast er hvað ég hef talað mikið í síma. Ég fjallaði aðeins um það í gær en ég renndi yfir símtölin mín síðustu vikur og sá að ég hef átt mörg löng símtöl síðustu daga og vikur. Ég tala ekki mikið í síma, utan vinnusímtala alltént, en það hefur heldur betur orðið breyting á. Enda er þetta eina leiðin til að hafa samband við umheiminn. Mér líkar þetta ekkert illa, það rifjast upp fyrir mér hvað síminn var mikil miðstöð félagslífs míns sem ungs manns fyrir svona 20-25 árum. Þá hékk maður í símanum löngum stundum og kjaftaði um ýmislegt við vini, og við stelpur. Í minningunni hófst allt tilhugalíf við mögulegar kærustur á löngum símtölum. Þannig kynntist fólk, svo fór það í partý og dansaði saman og svo á skemmtistað þar sem maður kelaði í einhverjum leðursófa úti í horni fram eftir nóttu, og svo út í leigubíl og …

… en síminn var lykilatriði. Ef maður stóð sig ekki vel í símtalinu voru allar líkur á að sambandið gengi ekkert lengra. Og svo komu snjalltækin og maður hætti eiginlega alveg að tala í síma, en nú hefur faraldurinn valdið því að maður hefur engin önnur ráð. Þetta er hressandi.


Þá að minningunni. Það hefur komið fyrir mig einu sinni eða tvisvar áður að ég hef verið sannfærður um að eitthvað hafi gerst sem reyndist svo ekki vera satt. Að ég hafi reynst vera að ímynda mér einhverja útgáfu af einhverju sem hafi gerst en ekki eins og mig minnti það. Þetta eru ekki sláandi upplýsingar, það er vel vitað hve brigðult minni manna getur verið. Þetta er engu að síður óþægilegt.

Hér er minningin sem ég gróf fyrirvara- og ástæðulaust upp í gærkvöldi. Ég nam í Versló undir lok síðustu aldar og á annað hvort síðasta eða næstsíðasta árinu mínu vorum við í tíma, með bílinn minn lagðan á planinu beint fyrir neðan gluggana okkar, þegar einhver sem sat við gluggann truflaði kennsluna og kallaði yfir til mín (ég sat alltaf dyramegin með vini mínum) að það væri verið að míga utan í bílinn minn. Við stukkum öll að gluggunum og sáum að þarna voru staddir grímubúningaklæddir MH-ingar sem voru að dimmitera. Á meðan við vorum í tíma voru MH-ingarnir orðnir blindfullir og höfðu ráfað úr Kringlunni yfir götuna og ákveðið að míga á bíla Verslinga, sem MH-ingar eyddu furðumiklum tíma í að hatast út í, okkur til mikillar furðu (sennilega var það afprýðissemi, hugsar hinn sjálfumglaði fyrrum Verslingur með sér).

Nema hvað, einn af þeim stóð með bjór í hönd og besefann í hinni, undan einhverjum víkingabúningi ef ég man rétt, og meig utan í húddið og framdekkið á bláu Almerunni minni. Skipti þá engum togum að ég stökk út og fram á stigagang, nokkrir aðrir strákar úr bekknum með, flugum niður stigann og út um aðaldyrnar á byggingunni. Strákgreyið vissi vart hvaðan á sig stóð veðrið þegar við stukkum á hann, ég fremstur manna, og ég man að ég sparkaði fótunum undan honum svo hann datt á húddið hjá mér, bjórinn út um allt. Svo lét ég hnefum rigna yfir hann á niðurleiðinni og þegar hann var kominn í jörðina sparkaði ég nokkrum sinnum almennilega í gæjann. Vinir hans stóðu álengdar og hrópuðu á okkur að hætta, sem við og gerðum. Svo reif vinur minn þessa byttu úr MH á fætur og hálf henti honum frá bílnum og út á planið til vina sinna. Þar stóðu þeir í eina drykklanga sekúndu, óttaslegnir, sneru svo við og flúðu eins og fætur toguðu um leið og við eltum þá með öskrum og látum, hættum ekki að elta fyrr en þeir voru farnir út af bílaplaninu.

Svo snerum við aftur inn, hlæjandi, eins og ekkert hefði í skorist.

Þetta var sagan. En hér er vandamálið: ég er ekki viss um að þetta hafi verið ég og minn bíll í aðalhlutverki þarna. Ég man eftir að hlaupa niður með hópi manna af því að við sáum að það var verið að míga utan í bíl, og ég man eftir ryskingum við bílinn. Þetta eru atriðin sem ég er handviss um. En svo spyr ég mig, hef ég síðustu tvo áratugi smám saman meitlað þessa minningu í huganum yfir í útgáfu þar sem ég er í aðalhlutverki, hetjan sem sýnir skúrkinum í tvo heimana, sá sem fer fremstur í flokki jafningja og lemur mann og annan án þess að svitna við verknaðinn?

Ég er ekki viss. Ég veit ekki einu sinni af hverju þessi minning skaust upp úr kófinu í gær en þarna var hún allt í einu. Ég brosti að atburðarásinni en svo varð ég allt í einu óviss og spurði mig: lamdi ég þennan MH-ing sem meig utan í bílinn minn, eða var ég lítið annað en vitni að atburðarásinni? Er hugur minn fær um að hagræða minningum mér í hag svo að ég hljóti stærra og veigameira hlutverk, svo að mér líði betur með sjálfan mig? Þetta eru óþægilegar spurningar, af því að ef ég er fær um að blekkja sjálfan mig með þessa einu minningu, get ég þá yfirhöfuð treyst nokkru sem mig minnir? Var það kannski ekki ég sem skoraði beint úr hornspyrnu á Varmárvelli þegar ég var fimmtán? Vann ég ekki breikdanskeppni í grunnskólanum mínum? Var ég aldrei góður á skíðum? Var ég hreinn sveinn þegar ég kynntist konunni minni, og hafði bara ímyndað mér öll símtölin og leðursófana á næturklúbbum fram að því? Var aldrei ást í Tunglinu?

Ég verð að geta treyst eigin minningum. Það er algjört lykilatriði ef maður ætlar að njóta sinnar löngu ævi á seinni skeiðum. Ég þarf að finna út úr þessu, einhvern veginn. Kannski þarf ég að spyrja vin hvað gerðist í raun og veru þennan dag, vona að hann muni eftir þessu.

Þar til næst.