Kæri lesandi,

síðan skein sólin loks og af því tilefni skellti ég mér í göngutúr að loknum (heima)vinnudegi. Ég reimaði á mig gönguskóna, setti upp bláu sólgleraugun og rölti af stað um hverfið mitt. Á göngustígnum fyrir aftan grunnskólann mætti ég tveimur karlmönnum sem voru á hlaupum. Ég hrökklaðist af stígnum, passaði upp á að halda tveggja metra fjarlægðinni sem sérfræðingar krefjast af okkur, en mér fannst þeir of nálægt hvor öðrum svo ég spurði þá hvort þeir þyrftu ekki að passa. “Passa tvo metrana,” sagði ég þar sem ég stóð á grasblettinum við göngustíginn um leið og þeir hlupu framhjá.

Þeir staðnæmdust með hraði, eins og þeir hefðu rætt málið og tekið ákvörðun á augabragði og án orða. Svo litu þeir á mig, virtu mig fyrir sér, og glottu. Annar þeirra sagði, “bíddu, ert þú ekki gæinn sem ímyndar sér slagsmál og gerir sér upp mikilmennsku?” “Já,” sagði hinn þá, félaga sínum til stuðnings, “hugsaðu bara um sjálfan þig, félagi.” Þá snöggfauk í mig og ég ákvað að brjóta rúmlega tveggja áratuga ofbeldisbindindi mitt og sýna þeim báðum í tvo heimana en áður en ég gat látið hendur standa fram úr ermum litu þeir niður á fætur mína og hváðu.

“Er … er þetta þorskur?” spurði annar þeirra. “Hér uppi í fjalli?” spurði hinn. Ég horfði þangað sem þeir bentu, leit niður og sá að við fætur mína spriklaði smár þorskur í polli. Við vorum lengst uppi í fjalli, í hverfinu sem trónir hátt yfir Hafnarfirði, og hvergi lækjarsprettu að sjá, órafjarri fjöru. Við veltum því fyrir okkur hvernig hann gat hafa komist þangað, reyndum að virða hann fyrir okkur úr fjarlægð, þennan þorsk í dauðatygjunum. Þeir spurðu mig hvort ég vildi taka hann upp og færa hann eitthvert, en ég spurði á móti hvert, hvað í ósköpunum ég ætti að gera við þennan titt sem var of lítill og horaður til áts. Auk þess var kórónavírusinn mér ofarlega í huga eins og alltaf þessi dægrin og ég var ekki beint æstur í að handleika villt dýrið þar sem það kipptist til.

Eftir nokkra stund datt mér í hug leið til að skera á hnútinn. “Ég veit,” sagði ég. “Ef við snúum okkur undan hverfur hann kannski bara.” Þeir litu efins hvor á annan en svo var eins og þeir tækju aðra ákvörðun án orða. Þeir kinkuðu báðir kolli til mín og svo snerum við okkur undan. Ég taldi hægt upp á tíu og að því loknu snerum við okkur við aftur. Og viti menn, þorskurinn var horfinn! Hvert vissum við ekki, og nú læddist að mér sá grunur að aftur hefði ég verið að ímynda mér eitthvað merkilegt, eitthvað sem gæfi þessum degi meiningu sína, sögu að segja frá. En það passaði ekki, ef ég var sá ímyndunarveiki, hvernig stóð þá á því að hlaupadólgarnir sáu þorskinn líka? Á endanum sagði ég ekkert frekar við þá um málið, enda vorum við engir vinir þrátt fyrir þessa sameiginlegu reynslu. “Passið tvo metrana strákar,” sagði ég, sneri mér undan og gekk mína leið. Ég leit ekki við en þegar ég hafði gengið nokkra metra í burtu heyrði ég hrópað á eftir mér, “passaðu þig bara sjálfur þarna þorskhaus!” Þá var mér nóg boðið og ég sneri hratt við, heldur betur tilbúinn að berja þá til óbóta eftir allt saman.

Þeir voru horfnir. Ég leit í allar áttir en það var eins og hlaupadólgarnir hefðu gufað upp.

Ég fór ekki lengra eftir þetta, sneri bara við og gekk álútur heim á leið. Ég hafði um margt að hugsa en komst ekki yfir þessa atburðarás svo að ég samdi við sjálfan mig. Samningurinn var svohljóðandi: ef ég segði engum frá þessari lífsreynslu mætti ég ganga um í þeirri vissu að þetta hefði gerst í raun og veru, að í hverfinu mínu byggju hlaupadólgar sem ég skuldaði barsmíðar, og að undir göngustígnum við grunnskólann ólgaði straumhörð á sem liggur beint niður úr fjallinu og til sjávar.

Þar til næst.