Kæri lesandi,

mikið djöfulli var gott að komast út úr húsi í dag. Ég keyrði stuttan hring inn í Reykjavík með pakka sem átti að sendast út á land, sú keyrsla var öllu ánægjulegri í sól og blíðu. Ég áttaði mig líka á því á leiðinni inneftir að þetta var í fyrsta sinn í rúman mánuð sem ég fór inn í Reykjavík. Það hefur held ég bara aldrei gerst áður síðan ég fékk bílpróf. Fordæmalaust.

Svo fórum við út á skólalóð í dag, litla fjölskyldan. Ég pumpaði í dekkin á reiðhjólum dætra minna og svo sátum við Lilja og horfðum á þær hjóla og hlæja og skemmta sér í blíðunni. Kisa nennti ekki með okkur í þetta sinn, reyndar, en það var allt í lagi. Sólskinið gerði alveg helling fyrir sálartetrin. Í fyrsta sinn í ansi langan tíma leið mér eins og að þetta gæti mögulega reddast fyrir rest. Slík bjartsýni er ekki sjálfgefin, það mætti jafnvel segja að hún væri… fordæmalaus.

Þar til næst.