Kæri lesandi,

Skírdagur kom og fór. Ég eyddi deginum í hálfgerðum doða, blöndu af leti og andleysi og skorti á verkefnum. Ég reyndi að lesa en komst ekkert af stað, las í einni af úrslitabókunum sem ég þarf að lesa fyrir bókmenntaverðlaun ársins og sofnaði fljótt yfir henni. Það var ekki henni að kenna. Svo ætlaði ég að skrifa en komst aldrei að tölvunni. Ég horfði ekki einu sinni á sjónvarp að ráði. Þvílík lognmolla.

Við borðuðum dýrindis nautasteik í kvöld. Þegar ég og L vorum að ræða matseðil páskanna sagði ég við hana að við hefðum ekki borðað dökkt kjöt í fleiri mánuði, fyrir utan stöku hamborgara og/eða hakkrétti. Þannig að við ákváðum að kaupa steikur og tjalda öllu til, gera alvöru kvöld úr þessu. Við gerðum það í kvöld … og steikin settist svo hratt eins og akkeri í magann á mér að ég svitnaði, ég fann til mín og þorði vart öðru en að skríða strax í sófann, enda líðanin eins og ég væri kominn með bullandi magapínu. L leið svipað og við ræddum þetta og komumst að þeirri niðurstöðu að maginn hafi hálf sjokkerast af því að það er svo langt liðið síðan hann fékk medium rare dökkt kjöt. Við ákváðum eiginlega að láta þetta bara vera framvegis, og ég er undarlega sáttur við þá ákvörðun. Ég hef verið að draga mikið úr kjötáti síðustu misseri en það er samt skrítin tilfinning að vera eiginlega bara hættur að nenna steikarkjöti. Þar er ég nú samt.

Í kvöld, í kjötsjokkinu, horfði ég svo á klukkutíma spjall á Facebook við bandaríska rithöfundinn Kiese Laymon. Hann hefur skrifað tvær bækur um líf sitt og reynslu en þá seinni, Heavy, las ég fyrir tveimur árum og hún hafði mikil áhrif á mig. Ef ég ætlaði mér af alvöru að skrifa ævisögulega bók þá yrði hún eins konar blanda af brútal hreinskilninni í verkum Laymon og skáldævisögulegu efni Knausgaard. Það er auðvitað blanda sem passar engan veginn saman, enda eru þetta bara draumórar í mér á þessu stigi. Ég mun aldrei skrifa um eigið líf fyrir aðra að lesa. Gæti það ekki. En ég dáist að höfundi eins og Laymon, sem er ekki aðeins feykigóður penni heldur mjög skemmtilegur á að hlusta. Ég mæli með Heavy fyrir þá sem telja sig ráða við alvöru einlægni.

Hér að ofan er svo mynd af páskaungunum sem dætur mínar föndruðu fyrir hátíðina. Myndin var tekin á mánudag eða þriðjudag, þegar verkinu lauk og þeir fengu að prýða gluggakistuna í stofunni. Stuttu síðar reyndi kötturinn að éta einn þeirra og þá voru þeir færðir upp í bókahillu þar sem Tinna nær ekki til þeirra, en því miður of hátt til að yngri dóttir mín geti notið þeirra án upphækkunar og því biður hún pabba sinn reglulega um að halda á sér svo hún geti tékkað á ungunum sínum. Hvað viðvik á heimilinu varðar er slíkt með því skemmtilegasta sem ég veit. Við fylgjumst oft of vel með páskaungunum.

Þar til næst.