Kæri lesandi,
þetta var langur föstudagur. Ég talaði við bræður mína á fjarfundi, ég talaði við vini mína í síma, ég talaði við dætur mínar allan daginn, ég talaði við konuna mína þegar ég var ekki að sinna dætrum mínum. Ég gerði nákvæmlega ekki neitt í dag, að ofantöldu fráskildu. Nákvæmlega ekki neitt. Ekki … nokkurn … skapaðan hlut.
Stundum held ég að ég þurfi að vera aðeins mildari við sjálfan mig. Á pappír var þetta fínasti föstudagurinn langi. En ef þú spyrð mig var þetta algjört fokking kjaftæði frá upphafi til enda. Af því að ég gef sjálfum mér aldrei breik. Hausinn er alltaf á fullu, skrensandi yfir öll gatnamót á rauðu, vélin farin að sjóða og lifandi lík í skottinu. Mig skortir alla sjálfsánægju.
Þetta var þannig dagur að ég einsetti mér að gera … minna á morgun en meira af því sem fær raddirnar til að halda kjafti. Sjáum til.
Þar til næst.