Kæri lesandi,
það gerist oft að ég staldra við einhverjar setningar sem hafa ratað á skjáinn og spyr mig, vil ég virkilega birta þessi orð? Vil ég senda eitthvað annað út í kosmósið en mínar bestu hliðar? Ég staldraði við orð gærdagsins en ákvað svo að birta þau, þrátt fyrir ástand þeirra. Færsla gærdagsins var tuðandi, pirrandi, illa ígrunduð, eiginlega bara bölvað væl. Hún lýsir því nákvæmlega hvernig mér leið í gærkvöldi, og sem slík er hún fullkomin. Ég lofaði sjálfum mér þegar ég fór af stað með þessa síðu og dagleg skrif að ég myndi umfram allt vera hreinskilinn, því ef ég dreg undan í bók um daga þá er ég að svíkja sjálfan mig. Vissulega gæti ég skrifað þetta annars staðar en á opnum vettvangi en ég hef reynt það og þegar ég þarf aðeins að standa skil á sjálfum mér á ég auðvelt með að svíkjast um. Það er ákveðin pressa í að birta eitthvað daglega, þótt það lesi það fáir nema ég sjálfur.
Þannig að ég tuðaði smá í gærkvöldi og fór svo að sofa.
Ég svaf ágætlega, þrátt fyrir hringiðuna. Með árunum er ég orðinn betri í að koma mér niður þegar allt hringsnýst, en ég hef á móti glatað hæfileikanum til að sofa fram eftir. Ég vaknaði eldsnemma í morgun eftir nokkurra klukkustunda svefn og ákvað að tækla hugarástandið. Það var forgangsverkefni. Ég fór fullklæddur fram og fékk mér vatnsglas. Burstaði tennurnar, tók D-vítamínið mitt. Svo settist ég með íhugunarapp í eyrunum og íhugaði í tíu mínútur. Þetta geri ég daglega, nema þegar ég geri það ekki. Að íhugun lokinni yfirgaf ég húsið og gekk um hverfið í 45 mínútur. Ég mætti einni manneskju á öllum þeim tíma, enda klukkan bara sjö á laugardegi.
Íhugun er magnað fyrirbæri. Sam Harris, röddin í eyrum mér, sá sem stýrir mér og kennir mér að íhuga, talar um að íhugun geti breytt heilastarfseminni, á sama hátt og þú þarft að breyta um hugsunarhátt til að læra nýja iðju. Ef þú vilt læra frönsku eða flísaleggja í fyrsta skipti þarftu að tileinka þér marga smærri hluti áður en þú getur talað frönsku eða dáðst að flísalögðu herbergi. Á sama hátt getur endurtekin íhugun skilað varanlegri hugarfarsbreytingu. Það er eflaust takmark allra sem ákveða að prófa íhugun.
Ég hef íhugað sjö sinnum síðustu tíu daga samkvæmt appinu, en þar áður íhugaði ég sex daga í röð fyrir mánuði áður en ég stoppaði af því að ég var ekki viss hvort ég vildi borga fyrir áskrift, og fríu tímarnir voru bara sex. En nú hef ég tekið stökkið og sé ekki eftir því. Það er merkilegt hvert hugurinn ferðast við það eitt að setjast niður, loka augunum og taka eftir andardrættinum. Oft byrja ég í nærumhverfinu, hlusta á hljóðin í kringum mig, svo er eins og ég fari út úr húsi og sjái hverfið í kringum húsið mitt. Stuttu seinna er ég svo farinn eitthvert allt annað, í morgun var ég til dæmis allt í einu kominn inn í Garðabæ, farinn að hugsa um hús sem frændi konu minnar átti en hefur ekki búið í í mörg ár, í hverfi sem ég hef ekki heimsótt lengi. En nú sá ég það fyrir mér, gekk um húsið eins og ég væri staddur þar. Nokkrum andardráttum seinna var ég kominn til Mílanó, áður en Harris benti mér í aðra átt með annarri góðri ábendingu. Auðvitað er stefnan sú að hafa Harris ekki í eyrunum á meðan ég íhuga en ég er bara byrjandi og hlusta því af áhuga.
Harris benti mér á að skoða tilfinningar mínar, spurði mig hvaða tilfinning hefði valdið því að ég ákvað að íhuga í þetta sinn. Fyrir mér var það rútína, ég er með ‘reminder’ á símanum um að íhuga þegar ég vakna, en svo leitaði hugurinn eðlilega í pirring gærdagsins og ég fór að skoða hann aðeins nánar. Í okkur búa margar tilfinningar sem eru hannaðar fyrir eldri tíma, viðbrögð sem nútíminn kallar ekki lengur á. Tökum óttann sem dæmi. Það að óttast eitthvað er lífsnauðsynlegt, viðbragð sem varar okkur við hættum og getur bókstaflega bjargað lífi okkar þegar svo ber við. Við þróuðum þetta viðbragð með okkur sem dýrategund á flakki um heim þar sem hættur gátu leynst við hvert fótmál. Ég hef litla sem enga þörf fyrir þetta viðbragð í dag, flest það sem ógnar mér eru atriði sem ég get ekki bjargað mér frá með því að bregðast ósjálfrátt við. Vissulega gæti ég sloppið úr klóm árásarmanna eða skynjað villidýr nálægt mér, kannski einu sinni eða tvisvar um ævina ef ég er óheppinn, en að öðru leyti gagnast óttinn mér lítið.
Hvað gerum við til dæmis við óttann við heimsfaraldur? Sitjum við bara stjörf með hugsanir okkar um hvað gæti mögulega gerst? Óttinn hjálpar ekkert til. Við þurfum að geta sleppt óttanum, látið hann fljóta frá okkur eins og lauf á vatni, en til þess þurfum við að þjálfa okkur í að sleppa. Eitt orð í einu, þannig lærirðu frönsku. Ein íhugun í einu, þannig sleppirðu óttanum.
Óttinn er ekki eina tilfinningin, eina viðbragðið. Við upplifum alls konar tilfinningar á hverjum degi sem eru leifar forritunar sem er að miklu leyti úrelt. Þannig snýst hugurinn reglulega gegn okkur í nútímasamfélagi. Hann er ekki hannaður fyrir áhorfendur að alheimsviðburðum, hann er hannaður fyrir þáttakendur í smærri atburðarásum. Hugur okkar er heldur ekki hannaður fyrir það stöðuga áreiti sem sækir að okkur allan daginn. Við verðum að æfa okkur í að sleppa.
Dagurinn er enn nýr af nálinni og mér líður strax miklu, miklu betur en í gær. Ég deili pirringi gærdagsins hér á síðunni, sem og úrlausn morgunsins eftir, ekki af því að ég óttast ekki að einhver kunni að lesa það heldur einmitt af því að ég óttast það. Og ég er að æfa mig í að sleppa óttanum. Einnig grunar mig að okkur líði öllum svona, hvort sem við viðurkennum það opinberlega eða ekki. Hvað óttast þú, lesandi kær? Æfðu þig í að sleppa.
Þar til næst.