Kæri lesandi,

stundum sit ég á kvöldin, þegar allir aðrir fjölskyldumeðlimir hafa lagst í rekkju, í sófanum með tölvuna í fanginu og vélrita fyrir framan sjónvarpið. Það er hægt af því að ég get ræst skjáhvíluna á Apple TV og varpað stórfenglegum loftmyndum af plánetunni Jörð og merkum stöðum hennar í háskerpu á 55″ sjónvarpsskjáinn minn. Sitjandi svona í sæmilegri nálægð við skjáinn get ég til dæmis horft á Manhattan að ofan og ímyndað mér að þar gangi lífið sinn vanagang, að þar séu ekki á annað þúsund manns að deyja daglega vegna faraldurs. Svo renni ég til hliðar og þá er ég staddur á Grænlandi, svíf eins og fuglinn frjáls yfir jökullónin og hrikalega firðina. Einni bendingu seinna er ég á sporbaug um jörðu og horfi niður á sléttur Afríku úr gríðarlegri hæð.

Við erum svo smá, en af því að við búum á öld sem þætti nánast galdraöld fyrir fólki sem var uppi fram á þá tuttugustu get ég ferðast um alla þessa staði á nokkrum mínútum, og svo get ég með snöggum innslætti fært allan heiminn á tölvuskjáinn minn. Og svo getur þú lesið þessi örfáu orð, lesandi góður, og séð þessar myndir ljóslifandi fyrir þér. Af því að árið er 2020 og við höfum öll séð Manhattan úr lofti, öll séð ísbreiður Grænlands, öll skoðað jörðina af sporbaug.


Ég áttaði mig á því í dag að í færslu gærdagsins kallaði ég hugleiðslu íhugun. Íhugun er ekki alveg það sama og hugleiðsla. Ég stofnaði meira að segja taggið ‘íhugun’ á síðunni. Mér sortnaði fyrir augum þegar ég fattaði þetta. Svona orðafuml er ekki til eftirbreytni. Ég þarf að íhuga þetta aðeins í næstu hugleiðslu.


Enn berast góðar fréttir úr baráttunni við COVID-19. Eða, „góðar“ innan gæsalappa væri kannski meira viðeigandi. Færri hafa látist hér á landi en bjartsýnustu spár bentu til, og þriðja daginn í röð er smitum að fækka. „Aðeins“ tólf smit voru staðfest í gær. Á blaðamannafundi dagsins ræddu ráðamenn um fyrirhugaða afléttingu samkomubanns. Þau sögðu að þetta færi líklega fram í fjórum fösum, það sem var fyrst sett í bann (eins og heimsóknir á dvalarheimili eða spítala) verður það sem síðast verður aflétt, enda viðkvæmast. Ef allt gengur að óskum gætu t.d. verslanir slakað á höftum fólksfjölda í byrjun maí, og í lok maí gætum við loks fengið að fara aftur í ræktina og sund. Sem þýðir að seint í júní gæti maður farið aftur í bíó eða leikhús, og út að borða, og í ágúst máttu knúsa þá sem þér sýnist. Eða eitthvað.

Ég viðurkenni að það er skrýtið að ræða afléttingu hafta þegar faraldurinn er í raun bara nýhafinn og fræðifólk er óðum að vara okkur við að ástandið geti verið viðvarandi mánuðum saman, jafnvel langt inn í næsta ár. Maður reynir að lesa í misvísandi upplýsingar og spyr sig, hvenær get ég faðmað ókunnugan mann á Laugardalsvellinum þegar Ísland skorar? Mér er sama hvað Reynir, Alma og Þórólfur segja, ég trúi ekki að slíkt geti gerst fyrr en búið er að bólusetja, eða að minnsta kosti þegar hið eftirsótta hjarðónæmi hefur náðst. Það er því eflaust langt þar til ég get faðmað ókunnuga, en ef ég fæ að faðma mömmu og bræður mína einhvern tímann í sumar verð ég meira en sáttur.

„Góðar“ fréttir. Jákvæð umræða. Þetta virðist ganga vel hér heima, á meðan hryllingurinn blasir við báðum megin við Atlantshafið. Förum vel með hvort annað, og okkur sjálf. Við erum það dýrmætasta sem við eigum.

Þar til næst.