Kæri lesandi,

litla fjölskyldan fór í sinn daglega göngutúr í dag. Stelpurnar tóku hlaupahjólin sín og því endaði gangan á skólalóðinni hér við næsta húshorn til að þær gætu rúllað aðeins á meðan við fylgdumst með. Á skólalóðinni er sparkvöllur og þegar við gengum framhjá honum heyrðum við sársaukafullt kvein og sáum ungan dreng, um tíu ára gamlan, haltra grátandi út af vellinum. Vinir hans fylgdu í humátt á eftir, áhyggjusamir á svip. Það fyrsta sem ég hugsaði var að enginn þeirra virtist vera að hlýða Víði, strákarnir voru að spila í talsverðu návígi með snertingar og tæklingar og faðmlög við hvert tækifæri.

Strákurinn settist á stein við völlinn og konan mín leit á fótinn á honum. Við snertum strákinn ekki en hún var í vettlingum og hann í sokk eftir að hann hafði smeygt sér úr skónum. Hann var óbrotinn og vildi reyna að haltra heim. Við sáum fram á móralska klemmu; að halda á barninu heim til sín og hunsa öll boð og bönn um fjarlægð, smita hann eða smitast af honum, eða horfa á hann haltra heim til sín? Við hikuðum, ég viðurkenni það, og hann haltraði af stað. Það tók hann talsverðan tíma að komast að næsta steini, í tuttugu metra fjarlægð, og þá settist hann þar og sagðist ekki komast lengra. Þá datt mér í hug ráð. Ég fékk nafn og númer hjá foreldra hans og hringdi í þau. Móðir hans svaraði, þau reyndust búa hinum megin við götuna og þremur mínútum síðar voru þau bæði komin til hans. Mamma hans leit á ökklann, hreyfði smá og gaf honum fingurkoss sem læknaði hluta af verstu meiðslunum, svo tók pabbi hans hann í fangið og þau gengu af stað yfir götuna. Eftir að hafa þakkað okkur fyrir umhyggjusemina, en okkur leið ekkert endilega eins og hetjum. Þetta var mórölsk klemma og ég er ekki viss um að við höfum valið rétt.


Nú í kvöld las ég í skáldsögunni minni, í fyrsta sinn í örugglega tvö ár. Veit ekki af hverju, ég á nokkur eintök af henni uppi í hillu (og nokkra kassa, örugglega hundrað bækur eða meira, í geymslunni) og ég bara tók eintak, opnaði einhvers staðar í miðjunni og las þrjár blaðsíður. Þetta var fínt, gott jafnvel. Ég veit að hún er ekki gallalaus en þetta er fínasta bók, ágætis frumraun og allt það. Ég veit ekki hvar eða hvernig mér tókst að snúa ágætis byrjun upp í „OMG þetta er ógeðslegra en allt vinsamlegast skríddu ofan í holu og aldrei angra fólk með neinu sem þú skrifar aldrei aftur er það skilið?!“, en mér tókst það nú samt. Ég er að skríða til baka úr holunni. Það tekur tíma, það er nú þannig.

Þar til næst.