Kæri lesandi,
hér eru nokkrar vangaveltur sem hafa hringlað í höfðinu á mér síðustu daga:
// Það þýðir ekki að ætla að skella upp velferðarkerfi í miðjum faraldri. Mörg lönd eru að reka sig á þetta. Við erum þar ekki undanskilin. Það er heimska að ætla að safna krónum í baukinn fyrir neyðarsjóð þegar þú ert búin/n að missa starfið og tekjustreymið er þornað. Þú safnar í baukinn þegar vel gengur til að eiga ef ske kynni. Nú kunni ske og það kom á daginn. Fjármálahliðin virðist ætla að þola höggið, þótt margir hafi misst vinnuna og atvinnulífið verði lengi að jafna sig á þessari skyndi-kreppu, en heilbrigðishliðinni er ábótavant. Við stóðum okkur vel og virðumst hafa haldið kúrfunni í lágmarki. Það er vel. En við vorum líka heppin. Sjá stórveldin beggja megin Atlantshafsins fyrir dæmi um hvað hefði getað gerst með t.d. bara annan þjóðarleiðtoga. Meira þurfti ekki til að „worst case scenario“ rættist í BNA og S-Br. Við vorum heppin.
// Talandi um ríkisstjórn, þá hefur verið hressandi að sjá hvað hægt er að gera þegar ríkisstjórn hefur engan pólitískan hag af því að bera blak af neinu. Þessi veira var fordæmalaus, og fyrir vikið fríaði hún yfirvöld allri ábyrgð af því að hafa valdið henni. Þeim var því frjálst að ganga til verks með það eitt að leiðarljósi að bjarga sem flestum. Ráðherrar hafa ekki logið að okkur vikum saman, sem ég man ekki hvenær gerðist síðast. Þetta mun að sjálfsögðu ekki endast en hefur verið hressandi. Við sjáum að það er hægt að eiga eðlileg stjórnmál.
// Í dag var fyrsti þingdagur eftir páskafrí. Stjórnarandstaðan fór í pontu og … kvartaði yfir því að hafa ekki verið boðið með á ráðsfundi, eða eitthvað. Ég kaus ekki þessa ríkisstjórn, en þegar þú getur ekki kvartað yfir neinu í þessum fordæmalausu aðgerðum öðru en því að þau hafi ekki boðið þér að vera memm, þá er betra að sleppa því að kvarta. Það má líka hrósa góðu starfi. Vel gert, öll.
// Að því sögðu, þá hnyklaði heilbrigðisgeirinn sinn gríðarstóra vöðva í þessum aðgerðum. Umræðan um hvaða starfsstétt er mikilvægust fyrir okkar samfélag er búin. Kláruð. Auðvitað eiga ráðamenn að drullast til að sjá sóma sinn í að gefa hjúkrunarfræðingum almennileg laun og veita auknu fé til heilbrigðismála. Þetta er öndunarvél samfélagsins. Þú tekur ekki sénsa með öndunarvélina.
// Forseti Þýskalands sagði í páskaávarpi sínu um helgina að Kórónavírusinn væri ekki stríð, við ættum ekki í baráttu við óvin sem hægt væri að sigrast á. Hann sagði að þess í stað væri um að ræða prófstein á samfélag okkar, á manngæsku og samhug. Það er ekki tilviljun að þau lönd sem eru að falla á prófinu eru öll leidd af popúlískum einræðisherrum í dulargervi lýðræðis, og að þau ríki sem hafa staðið sig best eru nær öll leidd af konum í flokki húmanískra ríkisstjórna. Konur eru ekki betri en karlar, en fjandinn hafi það ef það er ekki talsvert auðveldara að afvegaleiða karlmenn með ríg og rógburði. Fíllinn er tignarleg skepna, en hann er samt fíll.
// Íþróttir eru í senn mikilvægari en okkur grunaði og ekki. Ég hef saknað íþróttaútsendinga óheyrilega mikið síðustu fimm vikur, en á sama tíma hef ég komist að því að ég kemst auðveldlega af án þeirra. Ég er ekki einn í þeim báti. Þegar kappleikir hefjast að nýju skulum við meta þá að verðleikum, en við skulum líka halda í þá dýrmætu lexíu að það er galið að bestu íþróttamenn heims skuli þéna milljarða á meðan hundruðir starfsmanna sömu íþróttaliða þrauka varla ein mánaðamót af tekjumissi. Það er til fyrirmyndar að sjá frægustu stjörnur heims stíga upp og gefa rausnarlega af launum sínum til starfsmanna íþróttanna, en það ætti ekki að þurfa að vera svo. Messi og LeBron geta séð af fjórðungi tekna sinna en það á ekki að vera þeirra að gefa þær eftir. Jöfnuð í atvinnugreinina, takk.
// Ég spái því að Netflix fari á hausinn þegar ástandinu er endanlega aflétt. Veitan er að halda okkur á lífi á þessu heimili en fjandinn hafi það að ég muni horfa á svo mikið sem einn helvítis þátt þegar ég þarf þess ekki lengur. Ekki banka uppá þegar þessu lýkur, ég verð að heiman.
Þar til næst.