Kæri lesandi,
hugleiðslunámskeiðið gengur vel. Í gærkvöldi settist ég niður í myrkrinu og stundaði hugleiðslu með leiðbeinandann í eyrunum í tólf mínútur. Svo fór ég beint í rúmið og steinsofnaði á mettíma. Ég hef verið að prófa mig áfram með ýmsar aðferðir, reyni að finna bæði bestu staðsetninguna og stellinguna til að hugleiða. Í þetta sinn prófaði ég að hugleiða rétt áður en ég lagðist til hvílu. Það kom vel út, ég svaf eins og ungabarn. Ég er ekki mikið fyrir að sitja í lótusnum á gólfinu, komst fljótt að því, en ég hef prófað að sitja í sófa, sitja á stól, sitja uppi í rúmi, liggja uppi í rúmi (óráðlegt, sofnaði) og sitja á gólfinu uppi við vegg. Ég hallast mest að því að sitja á stól með hendur á lærum, lófana niður utan um hnén. Passa að vera teinréttur, níutíu gráður alls staðar, og svo loka ég augunum og anda með nefinu. Þetta er sennilega mín réttstaða.
Annað hefur áhrif á leit mína að réttstöðu og það er líkamsþyngd. Við sem erum yfir kjörþyngd þurfum í hvívetna að taka tillit til þess hvernig sæti og stelling hafa áhrif á okkur. Í sumum stellingum finn ég óhóflega mikið fyrir þyngdinni, til dæmis verð ég fljótt þreyttur í mjóbaki og fótum ef ég sit á beru gólfi en að sama skapi er ekki þægilegt að sitja í rúminu, með of mjúkt undir mér, því þá fæ ég sökkvandi tilfinningu þegar ég loka augunum og læt hugann reika.
Feitt fólk er vant því að þurfa að kljást við alls konar flokkanir. Ertu yfir kjörþyngd, ertu feit/ur, offeit/ur, þybbin/n, þung/ur, o.sv.frv. Enginn þessara flokka lætur fólki líða sérstaklega vel með sjálft sig, hvorki þegar vel gengur (léttist) eða þegar illa gengur (þyngist). Ég hef sökum hreyfingarleysis og doða síðustu misseri þyngst (slæmt) og uppgötvað nýjan flokk. Flokk sem mig grunar að annað fólk í yfirþyngd tengi við en ekki margir aðrir, kannski. Þessi flokkur er einfaldur: finn ég fyrir líkamanum við einfaldar athafnir eða ekki?
Dæmi: einu sinni reimaði ég skóna án þess að finna fyrir líkamanum. Svo fann ég hvernig loftið þrýstist úr lungunum þegar ég reimaði skóna. Nú líður mér alltaf eins og ég sé að reima skóna. Ég finn fyrir líkamanum.
Þetta hefur verið mér ofarlega í huga síðustu daga þar sem ég leitast við að finna réttstöðu til hugleiðslu. Þyngdin vill trufla, og ég er að reyna að finna ekki fyrir líkamanum. Þess vegna þykir mér best að sitja tein- og hornréttur á stað sem er hvorki of mjúkur (bangsasnáði) né of harður (bangsapabbi). Hann þarf að vera akkúrat (bangsamamma). Þá er ég Gullbrá og get látið hugann reika.
Og hvert leitar svo hugurinn? Nú hef ég hugleitt í tvær vikur eða svo og ég sé ákveðið mynstur. Til dæmis finnst mér ég lenda oftar á stöðum en fólki, hvort sem ég sæki í einhverjar minningar eða ímyndunaraflið. Ég veit ekki hvað það segir, af hverju ég sé staði tengda kærum minningum en ekki fólkið sem var á staðnum með mér. En svona er þetta nú samt. Þessar niðurstöður eru ekki endanlegar, ég held áfram að skrásetja.
Að lokum: í dag er veðrið prýðisgott. Sól, logn, fuglar syngja, stéttin þurr fyrir utan hús og gaman að vera utandyra. Ég fór á peysunni í vinnuna í morgun, það styttist í fyrsta stuttermabol ársins. Ég finn minna fyrir mér eftir því sem hlýnar, get betur liðið á milli staða án þess að þurfa í sífellu að gæta að líkamanum. Sumarið er jú enda réttstaða þessa lands. Sumarið er tíminn.
Þar til næst.