Kæri lesandi,

við erum í sjöttu viku faraldursins og ég skammast mín að segja frá því að ég á enn í stökustu vandræðum með að hætta að snerta á mér andlitið. Eftir að bent var á hversu oft meðalmanneskjan snertir á sér andlitið á dag að jafnaði (oftar en þúsund sinnum) (ég gerði pásu núna til að klóra mér í augabrún) þá hef ég verið óþægilega meðvitaður um hvað ég snerti andlitið oft. (klóra skegg á höku) Ég hef haft núna fimm vikur til að venja mig af þessu og það gengur illa. Ég er alltaf að snerta mig í framan.

Mest snerti ég á mér nefið, þótt ekki bori ég í það. En mig klæjar stöðugt í nefinu og ef ég reyni meðvitað að láta það vera safnast kláðinn upp. Allar þessar litlu snertingar, rétt að dreypa vísifingri á nefbroddinn eða klípa aðeins í það eins og ég sé að færa brjóskið aðeins til, eða klóra mér undan gleraugunum með nögl. Ég get ekki hætt þessu.

Ef illa fer fyrir mér í heimsfaraldrinum þá lýsi ég því hér og nú yfir að það verður vegna þess að ég gat ekki hætt að snerta á mér andlitið. (nudda auga við miðnes)


Þríeykið góða skammaðist aðeins í þjóðinni í gær fyrir að vera mögulega að fagna of snemma. Víðir sagði að þau væru að (klóra nefbrodd) fá fleiri fregnir af því síðustu daga að hópar væru að safnast saman og haga sér á óábyrgan hátt. Í morgun fékk ég svo (toga í eyrnasnepil) póst frá skólastjóra grunnskóla dætra minna þar sem bent var á að (toga aftur í eyrnasnepil, tókst í þetta skiptið) krakkar væru farnir að safnast saman að kvöldlagi á skólalóðinni og brjóta nálægðarbönn. Eldri dóttir mín gerðist sek um þetta á annan í páskum og ég þurfti aðeins að skammast í henni, nú þarf ég að ræða þetta aftur við hana og spyrja hvort hún hafi ekki verið skynsöm í vikunni.

Víðir komst vel að orði á upplýsingafundinum í gær, hann sagði að sumir væru farnir að láta eins og 4. maí væri þegar runninn upp. Ég held líka að Íslendingar haldi að þessu ljúki öllu fjórða maí, að það sé einhver lína í sandinum sem við getum stigið yfir og látið eins og Covid-19 sé ekki til lengur. Sú lína er enn ekki til, því síður í sjónmáli og það er sko talsvert lengra en rúmar tvær vikur í að hægt sé að byrja að ræða um slíka línu. Mín skoðun er að við erum að tala um raskanir og takmarkanir út árið 2021, nema að alþjóðasamfélaginu takist á einhvern undraverðan hátt að bólusetja meirihluta mannkyns fyrr. (toga í þriðja sinn í eyrnasnepil)

Í morgun komu tveir menn hér inn á skrifstofuna til okkar. Þeir voru glaðir í bragði, hvorugur í hönskum, annar þeirra rauk beint í kaffivélina og opnaði skápa og handlék könnur og glös, hinn kom og studdi höndum á skrifborðið hjá mér. Ég skammaði þá fyrir (og klóraði kinn), sagði þeim að þeir mættu ekki fagna of snemma, við yrðum að vera skynsöm og halda áfram að sýna varkárni (og klóraði hina kinnina). Þeir játtu því báðir, annar þeirra sagði svo „við pössum okkur“ og tók svo við sykurmolapakkanum frá hinum, hvorugur í hönskum. Svo setti hann einn mola upp í sig og notaði tækifærið og strauk sér um munnvikin báðum megin.

Við megum ekki fagna of snemma. Það er nóg eftir af þessum faraldri, þótt Íslendingar vilji stundum láta eins og það sé til of mikils mælst að ætla okkur að hafa okkur hægan í nokkrar vikur. Fyrri kynslóðir fóru í stríð sem vörðu árum saman, þið getið alveg verið heima og horft á sjónvarpið. Koma svo.

(klíp nefið)

Þar til næst.