Kæri lesandi,

ég er alveg búinn á því. Helgin hefur farið í rosalega hreinsun á búslóðinni hér innandyra. Geymslan var tæmd fram á gang og í stofuna, þrifin og lagfærð til. Svo hefur öll helgin legið undir, fjölskyldan hefur sorterað, hirt og hent, rifist og sæst. Við höfum ekki verið sammála um allt en náð að lenda því flestu án atvika. Og nú er megnið af því sem á að halda komið inn í geymslu aftur, auk þess sem margt annað hefur fengið sömu dómsmeðferð eins og til dæmis allt dótið á strjáli í þvottahúsinu og nokkrir plastkassar fullir af alls konar borðspilum og barnapúslum.

Ég fór með tvö troðin bílfermi í Sorpu í dag. Þvert á viðvaranir var engin biðröð þegar mig bar að, í hvorugt skiptið. Bara inn og út, takk og bless. Kannski hafði veðrið eitthvað að segja en það hefur verið rigning og rok í allan dag. Fólk nennir kannski ekki á Sorpu í rigningu og roki.

Tvennt er það sem var kannski markverðast að kveðja í dag. Konan mín henti saumavél móður sinnar. Móðir hennar lést í Kanada 1991, þegar konan mín var tíu ára gömul, en hún var mikil saumakona og Lilja erfði saumavélina. Við höfum verið saman í næstum tvo áratugi og hún hefur alltaf saumað mikið á þessa vél en nú er fullreynt að ætla að tjasla henni lengur saman, hún bara hélst ekki gangandi og því var komið að erfiðri ákvörðun. Hún bað mig um að fara með vélina og bað mig að tala ekki um það við sig aftur. Ég sagði ekki orð heldur rauk beint með allt sem ég gat troðið út í bíl, saumavélina þar á meðal, og kláraði dæmið. Þegar ég kom heim sat hún á rúmstokknum sínum og spurði, „er það búið?“ Ég kinkaði kolli. Hún sagði, „þetta er eiginlega svakalegur léttir.“ Svo lagðist hún uppí og kom ekki aftur fram. Nú sofa báðar dætur mínar hjá henni og ég þori eiginlega ekki að trufla þetta, það er einhver heilög stund í gangi þarna inni. Mögulega skríð ég bara upp í unglingarúmið og sef þar í nótt. Hvað er betra þegar maður saknar mömmu sinnar en að eiga svona yndislegar dætur?

Hitt sem ég henti og þótti eftirtektarvert voru sex kassar af skáldsögunni minni, þessari einu. Þetta voru um 200 bækur sem útgefandinn hafði beðið mig um að taka fyrir sig vegna plássleysis. Hann geymdi örugglega önnur 200 eintök hjá sér og hún er enn til í hverri bókabúð og á bókasöfnum. Ég hafði ekki pláss fyrir þessa kassa lengur, þar sem ég ætla að nýta plássið í geymslunni okkar stóru til að búa til skrifstofu. Mér fannst ákveðin táknræn fegurð í að henda gömlu bókinni til að búa til pláss þar sem ég get kannski skapað nýja. Það var samt skrítið að láta bókina flakka. Ég hélt eftir kassa með þrjátíu eintökum en samt, þetta eru ákveðin þáttaskil. Svo ætlaði ég að vorkenna mér eitthvað fyrir þessa dramatísku stund, þar til ég rauk seinni ferðina með saumavélina góðu. Nú dettur mér ekki í hug að kvarta.

Það kostaði (smá) blóð, svita og tár, en nú er geymslan hálftóm. Eða hálffull, eftir því hvernig á það er litið.

Þar til næst.