Kæri lesandi,

ég er óskaplega þreyttur í dag. Þreyttur. Ástæðan er einföld, ég svaf ekki nóg um helgina. 2-3 klst á nóttu er ekki nóg, sérstaklega ekki þrjár nætur í röð. Ég verð stundum svona þegar ég hef unnið krefjandi starf, eins og tiltektin um helgina reyndist. Þá næ ég ekki að slaka á, líkaminn er þreyttur en í stað þess að líða út af breytist ég í uppvakning og enda á að ráfa um heimilið í myrkrinu og dunda mér þar til skömmin rekur mig til rekkju.

Ég veit venjulega að ég er orðinn of þreyttur þegar ég fer að rugla orðum þegar ég tala, eða hreinlega búa til ný eins og það sem er titill þessarar færslu. Ég sagði þetta orð við konuna mína áðan, að ég væri orðinn vansvefningur af þreytu, og hún brosti bara og sagði mér að fara snemma að sofa. Sem ég ætla nú að gera, en fyrst varð ég að skila af mér dagsverkinu góða, sem ég hef nú gert. Vansvefningur er svolítið fallegt orð fyrir einstakling sem hefur vanrækt svefn. Ég ætla að halda þessu orði til haga.

Í nótt ætla ég að reyna að ná löngum djúpsvefni, týpunni þar sem ég man ekkert um leið og ég vakna og finn fyrir endurnýjuðum þrótti. Ég verð illa svikinn ef ég stekk ekki á fætur eldsnemma í fyrramálið og tækla þriðjudaginn af energí og trú. Illa svikinn.

Þar til næst.