Kæri lesandi,

ég svaf vel. Níu og hálfan klukkutíma. Vaknaði endurnærður. Takk fyrir að spyrja.


„Carry on Wayward Son“ er lag með bandarísku hljómsveitinni Kansas. Það hefst á viðlaginu sungnu a capella, svo rokkát kafla og svo gítarsólói. Svo byrjar lagið sjálft, eiginlega. Óhefðbundið, en hressandi.


Í gær voru staðfest smit af Kórónaveirunni á Íslandi fimm talsins. Daginn þar áður voru þau tvö. Þetta er allt að þokast í áttina. Vonandi verðum við búin að fá nokkra daga á núlli áður en fjórði maí rennur upp. Mér finnst á umræðum og lestri netsins eins og við séum sem samfélag að átta okkur á tvennu í einu;
a) að við séum að komast yfir það versta,
b) og að við eigum engu að síður eftir að búa við takmarkanir mánuðum saman.

Það er vel að sem flestir átti sig á þessu. Við verðum að vera skynsöm.


Hvar eru annars allir pistlahöfundar landsins? Hvað varð um ástríðu fyrir hinu ritaða máli, almennt, á þessu skeri? Fréttamiðlarnir birta aðsendar greinar, en ég myndi ekki kalla þá pistla, með örfáum undantekningum (yfirleitt fagfólki eins og ritstjórn Kjarnans eða rithöfundum sem stinga niður penna (og ekki einu sinni þeim öllum)) eru þessir svokölluðu pistlar meira í ætt við Facebook-statusa heldur en alvöru skrif. Ég les reglulega svakalega pistla í erlendum miðlum, þar sem magnaðir höfundar fjalla á fiman hátt um ástandið á tímum veirunnar. Hér heima er varla nokkurn pistil af sömu gæðum að finna.

Ég las grein í morgun þar sem höfundur lýsir fjölmörgum tölvupóstsamskiptum sínum við ýmsa í gegnum tíðina, og ég fann fyrir söknuði eftir því að hafa skrifað tölvupósta út um allt, spjallað við fólk á Gmail svo árum skipti snemma á öldinni. Samt man ég hvað mér fannst þetta fátæklegt á sínum tíma, að vera að tölvupósta nokkrar setningar á milli fólks í stað þess að sýna smá metnað og deila alvöru pælingum og hugsunum einhvers staðar. Bloggin komu og fóru en þau urðu aldrei að neinni alvöru heldur nema hjá stöku manneskju.

Í dag fer megnið af mínum samskiptum fram á spjallrásum. Ég tala lítið í síma utan vinnu og við eiginkonuna og ég sendi ekki nokkurri manneskju eitthvað lengra, ígrundaðra. Kannski ætti ég að nota þennan vef til að birta stöku ávörp til ákveðinna aðila? Bréf til ____ ?

Eflaust hugsar þú, lesandi kær, að nú sé síðuhöfundur að byggja sér skýjaborgir. Þú bendir réttilega á að forðum daga hafi þetta ekki verið mikið skárra, fólk hafi talað meira saman í síma eða kíkt í kaffi fyrir tíma internetsins en dýpri samræður hafi verið alveg jafn sjaldgæfar þá og nú, og alls ekki farið fram í bundnu máli. Að ígrundaðar bréfaskiptir persóna á milli tilheyri löngu liðinni tíð, að Liaisons Dangereuses sé næstum því 250 ára gömul skáldsaga og það sé næstum jafn langt síðan fólk skrifaðist á. Ég gæti lítið sagt við þeim mótrökum, lesandi kær, en ég áskil mér engu að síður rétt til að sakna tilveru sem ég hef aldrei upplifað. Sjálfum er mér eðlislægt að tjá mig í bundnu máli og hefur alltaf verið. Ég er alltaf sá sem skrifar lengri SMS en hinn aðilinn, sá sem sendi langlokur á spjallrás eða í tölvupósti og fæ „OK flott“ eða „sammála“ til baka. Það er mín bölvun, ekki þín, lesandi kær. Ég bið þig engu að síður að sýna mér smá samúð hérna.


Að lokum, smá hreingerning. Ég talaði í mars um að ég væri að horfa á allar Mission: Impossible myndirnar með fjölskyldunni. Því glápi er nú lokið en ég átti eftir að skila af mér skýrslu. Nú hef ég ígrundað val mitt og er reiðubúinn að birta niðurröðun M:I-mynda eftir gæðum.

Listinn er svona:

  1. V
  2. IV
  3. III
  4. VI
  5. I
  6. II

Svo skilst mér að það séu tvær myndir til viðbótar á leiðinni í kvikmyndahús á næsta eða þarnæsta ári. Það er nokkuð ljóst að eldri dóttir mín fer fram á að við sjáum þær í kvikmyndahúsum, ef þau verða enn til árið tvö þúsund tuttugu og eitt.

Þar til næst.