Kæri lesandi,
dagurinn í dag er sumardagurinn fyrsti. Svona að nafninu til, allavega. Það eru þó engar skrúðgöngur og hvergi safnast fólk saman til að gleðjast, af vel kunnum ástæðum. Ég leit út um gluggann í morgun og virti fyrir mér gróðurinn í hverfinu. Fór og gekk um hverfið og leitaði að dökkgrænum litum en fann fátt.
Mér líður einhvern veginn eins og það sé ennþá febrúar, eða eitthvað. Þetta ár hefur verið óvenju langt, það hefur svo mikið gerst að ég hugsa eiginlega til síðustu áramóta með nostalgíu. Janúar var langur og veðrið erfitt, sama með febrúar og einmitt þegar maður eygði einhverja sólarglætu handan við hornið skall á heimsfaraldur og samkomubann. Fyrir vikið höfum við eiginlega lifað hinn endalausa marsmánuð og frekar snögga aprílmánuð eins og einhverja framlengingu af febrúar, allir húkandi inni eins og veðrið sé að trufla samfélagið. Veðrið hefur alveg leikið sitt hlutverk í þessu, sem skýrir hvers vegna vorið er rétt að skríða til byggða þegar það á tæknilega að vera komið sumar, en veiran er auðvitað aðalsökudólgurinn.
Langur janúar, veðurtepptur febrúar og endalaus mars sem teygði sig inn í apríl líka. Við verðum sennilega að reyna að upplifa apríl í maí og vona að við getum svo bara sleppt maí og farið beint inn í júní.
Hvað sem því líður þá hlýðum við dagatalinu og því óska ég þér gleðilegs sumars, lesandi góður, og þakka þér kærlega fyrir að kíkja hérna við reglulega í vetur. Við kláruðum þennan lengsta og erfiðasta vetur í manna minnum saman. Okkur tókst það! Nú skal leiðin liggja upp á við. Blíða, hiti, sólskin – faðmlög, hittingur, gleði – jafnvel íþróttir og lifandi tónlist! Lífið bíður ekki mikið lengur.
Þar til næst.