Kæri lesandi,

ég dreymdi stórfurðulega í nótt. Í heiminum ríkti ástand, Austurríki reið á vaðið með að loka landinu algjörlega gagnvart öllum sem ekki stóðust þröngar skilgreiningar um alvöru Austurríkismenn. Samkynhneigðum, innflytjendum, trúlausum og þeim sem ekki voru kristnir, óskilgetin börn og fleiri í þeim dúr voru sendir úr landi. Skömmu síðar var komið að Íslandi og hér tókum við það sama upp. Ég gekk á milli fólks og bað það um að sýna samkennd, man að ég sagði við fólk að ef það tæki ekki upp hanskann fyrir aðra hópa þá ætti það enga bandamenn þegar kæmi að þeim sjálfum. Mér var mikið niðri fyrir.

Svo vaknaði ég alveg gufuringlaður í morgun út af þessu. Ég þurfti tíu mínútur þar sem ég rölti stirður um íbúðina, fyrstur á fætur, fékk mér vatnsglas og skilaði vatni á móti, burstaði tennurnar, allan tímann tautandi yfir þessum draumi. Það var ekki endilega efni draumsins sem var svona uggandi, þetta er raunar óþægilega nærri þeim veruleika sem við búum við og virðumst ætla að stefna í næstu árin, heldur hversu raunverulegt þetta var. Ég vaknaði hissa á að vera ekki á leið úr landi enda einn af þeim sem uppfyllti ekki allar kröfur (trúlaus).

Kannski dreymdi mig svona af því að ég stundaði hugleiðslu í gærkvöldi. Hún var það síðasta sem ég gerði áður en ég fór að sofa. Tæmdi hugann og bjó þannig til pláss fyrir einhverja svakalega dystópíu. En kannski var það af því að ég horfði á fyrstu tvo þættina af heimildarröðinni Undirrót haturs (Why We Hate) á RÚV í gærkvöldi, áður en ég stundaði hugleiðslu. Þessir þættir kanna hvernig samfélög skipta sér í fylkingar og þróa með sér svo mikið hatur á náunganum að afleiðingarnar verða oft hroðalegar. Þessir þættir eru frábærir, ég ætla að halda áfram með seríuna um helgina. Sennilega horfi ég samt á einn þátt af Friends eftir á eða eitthvað, til að reyna að verja draumfarir mínar aðeins.

Í fréttum er það annars helst að nú eru tíu dagar þar til fyrsta fasa samkomubannsins á Íslandi verður aflétt, og nú fyrir skemmstu staðfestu yfirvöld að ekkert nýtt smit greindist á síðasta sólarhring. Þetta er fyrsta núllið okkar síðan veiran náði til landsins og fyrsta smit greindist. Þetta eru auðvitað frábærar fréttir og því ber að fagna.

Í ljósi þess að sumarið er formlega komið, sólin og grænkan eru á næsta leyti og nýsmitin eru að hverfa leyfi ég mér að hugsa til sumarsins. Það er ljóst að við verðum öll innanlands í sumar og jafnvel enn lengur en það. Ég var blessunarlega ekki búinn að ráðgera neinar utanlandsferðir í sumar en ég var með háleitar áætlanir fyrir haustið. Það er búið að slá þær af, ég var sem betur fer ekki búinn að borga fyrir flug eða gistingu neins staðar svo að ég get bara séð til, beðið spakur. En í sumar er nokkuð ljóst að dætur mínar fá að fara á ýmis námskeið að eigin vali, enda löngu komnar með nóg af inniverunni, hvor annarri og okkur foreldrunum. Svo ætlum við að vera eins mikið í bústaðnum og við getum, og fjandinn hafi það ef ég fæ ekki að horfa einhvers staðar á fótbolta.

Að lokum, þá hóf ég lestur á síðustu bók til dómnefndarstarfa í gær. Dómnefndin (fjar)fundaði í gærmorgun og nú er ljóst að valið stendur á milli tveggja spennusagna sem hreppa verðlaunin í sumarbyrjun. Ég er búinn með aðra þeirra og þarf nú að lesa hina af ákefð. Eftir tvær vikur hittumst við á ný og þá verður sigurvegari valinn. Spennan eykst sem sagt. Þetta er annað árið mitt af þremur í dómnefnd, ég verð formaður hennar á næsta ári eins og venja er með þann dómara sem er á lokaári sínu. Að því loknu býst ég ekki við að lesa mikið af íslenskum spennusögum í nokkur ár, þarf einfaldlega hvíld. En það þýðir ekki að hugsa þannig strax, ég var jú að byrja á einni sem hefst með látum og svo hef ég hálft ár til að hlaða batteríin fyrir síðustu lestrartörnina.

Þá er ljóst hvernig helgin lítur út hjá mér. Heimildarþættir (og stöku Friends-þáttur), útlistingar fyrir sumarfrí og síðasta íslenska spennubókin frá því í fyrra. Og vonandi stilltari draumfarir.

Þar til næst.