Kæri lesandi,

það færist hér með til bókar að laugardagurinn 25. apríl var fyrsti í bongó árið 2020. Heiðskírt, sól, hitinn í tveggja stafa tölu. Svo fór reyndar að rigna síðdegis, en skítt með það. Við vorum öll búin að vera utandyra í fleiri klukkutíma á þeim tímapunkti. Dýrð á himnum!

Ég kláraði síðustu dreggjar geymslutiltektarinnar. Svo stökk ég í drjúgan bíltúr með eldri dóttur minni, fórum á nokkra staði með dót sem við höfðum geymt of lengi fyrir annað fólk í geymslunni okkar, sóttum fyrstu bókina sem dóttir mín pantaði sér á Amazon í DHL hólf, keyptum pítsubotna fyrir gúrmeti kvöldsins. Hittum fólk, fengum okkur náttúrulegt D-vítamín, sungum í bílnum.

Fleiri svona daga, takk.

Síðdegis reyndi ég að lesa í bók en gekk illa að festa augum á orðunum. Ég veit ekki af hverju, eftir heilt líf með nefið á kafi í bókum, en ég á enn í hálfgerðu ástar/haturssambandi við skruddurnar. Stundum drekk ég í mig bækur eins og þær séu vatnsglas, en svo kemur fyrir að þetta er algjör brekka, óháð gæðum og skemmtanagildi þess sem ég er að lesa. Lestur dagsins var brekka, ég sat við í rúma klukkustund og innbyrti á þeim tíma tólf blaðsíður, sem er skammarleg frammistaða og varla til frásagnar. Ég vona að morgundagurinn verði minni brekka og meira vatnsglas.

Í kvöld horfðum við svo á Batman, mynd Tim Burton frá 1989 með Michael Keaton í hlutverki the caped crusader og Jack Nicholson sem Jókerinn. Hún er auðvitað mjög eydís-leg á að horfa en stendur enn fyrir sínu, hörkufín kvikmynd og dætur mínar skemmtu sér vel. Við ætlum að halda áfram með hinar fjóru upprunalegu myndir á næstu dögum.

Þar til næst.